Fótbolti

Lang­þráð endur­koma Val­geirs

Sindri Sverrisson skrifar
Valgeir Lunddal Friðriksson meiddist síðasta haust en er að komast aftur á fulla ferð.
Valgeir Lunddal Friðriksson meiddist síðasta haust en er að komast aftur á fulla ferð. Getty/Marius Becker

Landsliðsbakvörðurinn Valgeir Lunddal Friðriksson sneri loksins aftur til leiks í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag, eftir langvinn meiðsli, þegar hann lék með Häcken í 3-1 sigri á Kalmar.

Valgeir, sem varð sænskur meistari 2022 og bikarmeistari í fyrra, hafði ekki spilað deildarleik með Häcken síðan 1. október á síðasta ári, vegna meiðsla. Hann missti því af fyrstu sjö umferðunum í ár en kom inn á sem varamaður á 65. mínútu í dag.

Valgeir gæti því mögulega komið til greina í næsta landsliðshóp, þegar Ísland mætir Englandi og Hollandi í vináttulandsleikjum 7. og 10. júní.

Félagi hans úr landsliðinu, Arnór ingvi Traustason, var í liði Norrköping sem varð að sætta sig við 2-1 tap á heimavelli gegn Hammarby. Ísak Andri Sigurgeirsson var hins vegar á bekknum hjá Norrköping og fékk ekkert að koma við sögu.

Birnir og Gísli of seint inn á

Häcken er sem stendur í 2. sæti deildarinnar með 16 stig eftir átta leiki, tveimur á eftir Malmö sem á leik til góða við Gautaborg á morgun. Norrköping er hins vegar í 10. sæti með sjö stig eftir sjö leiki.

Í gær urðu Birnir Snær Ingason og Gísli Eyjólfsson að sætta sig við 3-1 tap með Halmstad gegn Mjällby. Staðan var orðin 3-0 í hálfleik þegar Gísli kom inn á, og Birnir kom svo inn á á 57. mínútu, áður en Halmstad náði að minnka muninn á 71. mínútu.

Halmstad er í 7. sæti með 12 stig eftir átta leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×