Innlent

Eld­gosinu lokið eftir 54 daga

Lovísa Arnardóttir skrifar
Slokknað er í þeim eina gíg sem eftir var í eldgosinu. Myndin er tekin í eftirlitsflugi Almannavarna í gærkvöldi. Engar hraunslettur sjást í gígnum þó áfram rjúki úr honum.
Slokknað er í þeim eina gíg sem eftir var í eldgosinu. Myndin er tekin í eftirlitsflugi Almannavarna í gærkvöldi. Engar hraunslettur sjást í gígnum þó áfram rjúki úr honum. Mynd/Almannavarnir

Eldgosinu við Sundhnúksgígaröðina sem hófst þann 16. mars er nú lokið. Sérfræðingar Almannavarna flugu dróna yfir gosstöðvarnar við Sundhnúk í gærkvöldi og þá var enga virkni að sjá í gígnum. Enn er kvikusöfnun í kvikuhólfi undir Svartsengi og líklegt að annað kvikuhlaup hefjist áður en langt er um liðið. 

Í frétt á vef Veðurstofunnar í dag segir að gosórói hafi farið minnkandi í gær og að engar hraunslettur hafi sést úr gígnum í nótt. Eldgosinu sé því lokið.

Í frétt Veðurstofunnar segir að kvikusöfnun haldi enn áfram undir Svartsengi og að líkanreikningar geri ráð fyrir því að um 13 milljón rúmmetrar af kviku hafi bæst við í kvikuhólfið frá því að eldgosið hófst 16. mars. Hraði kvikusöfnunar hefur verið á sama hraða og áður. 

Því telst líklegt að aftur hefjist kvikuhlaup úr hólfinu áður en langt er um liðið. Áður hefur verið varað við því að það geri gerst með mjög skömmum fyrirvara.

Veðurstofan mun samkvæmt frétt sinni fylgjast náið með stöðunni á gosstöðvunum, en að svo stöddu er hættumat óbreytt

Fréttin hefur verið uppfærð. 


Tengdar fréttir

Flæði innan við einn rúmmetri á sekúndu

Niðurstöður mælinga á hraunflæði í eldgosinu á Sundhnúksgígaröðinni benda til þess hraunflæði fyrsta klukkutíma gossins hafi verið 1100 til 1200 rúmmetrar á sekúndu en síðan hafi dregið hratt úr, og það verið komið niður í um 100 rúmmetra eftir sex til átta klukkustundir. Áfram hafi dregið úr hraunrennsli og meðaltalið 17. til 20. mars um fimmtán rúmmetrar. Fyrri hluta apríl hafi það verið þrír til fjórir rúmmetrar og mælingarnar benda til þess að það hafi verið um eða innan við einn rúmmetri síðustu tvær vikurnar.

Töluverð óvissa um framvindu jarðhræringanna

Enn gýs úr einum gíg við Sundhnúksgígaröðina. Hraunið rennur stutta vegalengd frá gígnum og fer virknin í gígnum minnkandi. Hraði kvikusöfnunar er svipaður og síðustu vikur. Gosið er nú meira en mánaðargamalt og er töluverð óvissa um framhaldið.

Gosið gæti þúsundfaldast við nýjan atburð

Gosið virðist vera að lognast út af en búast má við öðru þar sem kvikuhólfið undir Svartsengi er komið að þolmörkum. Prófessor í jarðeðlisfræði bendir á að það nýja gæti orðið um þúsund sinnum aflmeira en það sem nú kraumar. Enginn ætti að vera nærri sprungunni



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×