Innlent

Fjöldi verk­­falls­­boðana á Kefla­víkur­flug­velli á­hyggju­efni

Bjarki Sigurðsson skrifar
Ragnar Árnason er forstöðumaður vinnumarkaðssviðs Samtaka atvinnulífsins.
Ragnar Árnason er forstöðumaður vinnumarkaðssviðs Samtaka atvinnulífsins. Vísir/Einar

Forstöðumaður hjá Samtökum atvinnulífsins segir áhyggjuefni hversu oft stéttarfélög með starfsmenn á Keflavíkurflugvelli boði til verkfalla. Samtökin muni fara fram á frestun aðgerða þegar sest verður aftur við samningaborðið.

Verkfallsaðgerðir á Keflavíkurflugvelli hefjast að óbreyttu fimmtudaginn níunda maí þegar ótímabundið yfirvinnubann félagsmanna Sameykis og Félags flugmálastarfsmanna ríkisins tekur gildi. 

Daginn eftir leggur starfsfólk öryggisleitar flugvallarins niður störf í fjóra tíma og endurtaka leikin þrjá daga til viðbótar. Starfsemi flugvallarins mun að miklu leyti lamast á þeim tíma.

Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs Samtaka atvinnulífsins (SA), sem sjá um að semja við stéttarfélögin fyrir hönd ISAVIA, segir það mikilvægt að komast aftur að samningaborðinu.

„Þeir vilja fá það sem aðrir hafa samið um en síðan meira en það. Ýmis mál sem snúa að innanhúsmálum varðandi vinnufyrirkomulag og fleira hjá ISAVIA sem er auðvitað eðlilegt að ræða en það hefur ekki komið til greina af hálfu SA að fara fram hjá þessari launastefnu, sem hefur þegar verið mörkuð,“ segir Ragnar.

Fyrsta krafa SA verði að verkfallsaðgerðum sé frestað.

„Það er auðvitað áhyggjuefni að þau stéttarfélög sem eru með starfsfólk á Keflavíkurflugvelli sjái einhvern veginn í hendi sér að það sé sjálfsagt að fara í verkföll til að knýja á um meira en almennt gengur og gerist um launafólk hér á landi. Það er eitthvað sem maður veltir fyrir sér varðandi vinnumarkaðslíkanið hér á landi að þetta sé í boði. Að minni hópar marka sérstaka launastefnu, fram hjá þeirri stefnu sem aðrir eru tilbúnir að samþykkja,“ segir Ragnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×