Íslenski boltinn

Heilla­óskum rigndi yfir fimm­tán ára hetju Fram í skólanum

Aron Guðmundsson skrifar
Viktor Bjarki Daðason er yngsti markaskorari Fram í sögu efstu deildar fótboltans hér á landi. Hann er aðeins 15 ára gamall og á leið út í atvinnumennskuna í sumar.
Viktor Bjarki Daðason er yngsti markaskorari Fram í sögu efstu deildar fótboltans hér á landi. Hann er aðeins 15 ára gamall og á leið út í atvinnumennskuna í sumar. Vísir/Einar

Hinn 15 ára gamli Viktor Bjarki Daða­son varð í gær yngsti marka­skorari Fram í sögu efstu deildar er hann tryggði liðinu jafn­tefli undir lok leiks gegn Val í Bestu deildinni. Viktor er með báða fætur á jörðinni og heldur út í at­vinnu­mennsku í sumar.

Hetja Framara, Viktor Bjarki, hafði ný­lokið við skóla­daginn í Ingunnar­skóla þegar að við hittum á hann. Engin venju­legur skóla­dagur eftir við­burða­ríkt kvöld daginn áður. En þarna á ferðinni er enginn venju­legur 15 ára strákur. Viktor er gífur­legt efni í fótboltanum en er á sama tíma með báða fætur á jörðinni.

Það var ein­hver til­finning innra með Viktori sem varð þess valdandi að hann taldi öruggt að hann myndi skora í leiknum gegn Val á dögunum. 

Það virtist allt ætla stefna í 1-0 sigur Vals en undir lok leiks dró til tíðinda. Auka­spyrna Fram utan af velli. Boltinn inn á teig þar sem að hann endar hjá Viktori sem hafði áður komi inn á sem vara­maður. Viktor hamraði boltann í netið.

„Að fá kallið fyrir leikinn breytti miklu. Þegar að ég vissi að ég yrði í hóp,“ segir Viktor. „Frá því að ég fékk að vita það hafði ég það á til­finningunni að ég væri að fara skora. Ég var búinn að í­mynda mér að það myndi gerast. Ég mun muna eftir þessu kvöldi lengi. Ég var furðu ró­legur fyrir leik. Það var gott að fá síðustu fjóra leiki tíma­bilsins í fyrra. Það gerði mig ró­legri. Ég vissi að ég gæti spilað á sama stigi og þeir. Svo kom ég inn og geri það sem ég geri.“

„Til­finningin. Þegar að ég sá boltann í netinu. Hún var ó­lýsan­leg. En fyrir auka­spyrnuna vissu fáir hvað við værum að fara gera. Svo gerðum við þetta og það virkaði. Réttur maður á réttum stað.“

Ertu að segja mér að auka­spyrnan hafi verið tekin beint af æfinga­svæðinu?

„Þetta var beint af æfinga­svæðinu. Byrja í rang­stöðunni og fara svo út. Beint frá Gareth þjálfara. Sem var heppi­legt. Það virkaði núna.“

Yngsti marka­skorari Fram í efstu deild. Þriðji yngsti marka­skorarinn í sögu efstu deildar. Að­eins Þórarinn Kristjáns­son og sjálfur Eiður Smári Guð­john­sen hafa verið yngri en Viktor er þeir skoruðu sitt fyrsta mark í deildinni.

„Ég er bara að gera það sem ég elska. Spila fót­bolta og gera allt sem ég get fyrir fé­lagið. Þá er ekkert leiðin­legt að vera í sama hóp og þessir tveir mögnuðu leik­menn. En ég bara geri mitt. Reyni að gera mitt besta fyrir liðið. Það er gott að hafa náð þessu stigi gegn Val. Núna höldum við bara á­fram að gera eins vel og við getum.“

Og fram­haldið er spennandi fyrir þennan efni­lega leik­mann sem hefur skrifað undir samning við danska stór­liðið FC Kaup­manna­höfn og heldur hann út til Dan­merkur þann 1.júlí næst­komandi, degi eftir 16 ára af­mælis­dag sinn.

„Það er mjög spennandi að vera fara þangað út. Til stærsta fé­lags í Skandinavíu. Það er allt mjög flott í kringum fé­lagið. Komið vel fram við mig. Ég er bara mjög spenntur fyrir öllu. Fram að því mun ég hins vegar ein­beita mér að því að spila eins marga leiki og ég get fyrir Fram. Geri mitt besta þar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×