Erlent

Tekur fyrir að hafa verið „her­maður Hitlers“

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Hann var dæmdur til fimm og hálfs árs fangelsisvistar af héraðsdómnum í Holbæk árið 2022.
Hann var dæmdur til fimm og hálfs árs fangelsisvistar af héraðsdómnum í Holbæk árið 2022. EPA/Mads Claus Rasmussen

Sautján ára danskur drengur tekur fyrir það í héraðsdómnum í Holbæk að hafa verið hluti af nýnasískum hryðjuverkasamtökum og að hafa verið „hermaður Hitlers.“ Hann var handtekinn fyrir grun um aðild að alþjóðlegum hryðjuverkasamtökum árið 2022 og hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan.

Héraðsdómstóll í Holbæk á Sjálandi dæmdi drenginn í fyrra til fangelsisvistar í fimm og hálft ár vegna þess að hann hafði gert tilraun til að sannfæra skólafélaga um að ganga til liðs við hópinn Feuerkrieg Division. Samtökin eru alþjóðleg samtök nýnasista sem kallar eftir „kynþáttastríði“ og trúir að heiminum sé stýrt af gyðingum.

Hann hefur nú áfrýjað málinu og var það tekið fyrir í áfrýjunardómstól í dag. DR hefur eftir Lasse Martin Dueholm, verjanda drengsins, að krafist sé að dómurinn sé látinn niður falla og til vara að refsingin sé milduð.

Tók sér Al-Kaída til fyrirmyndar

Dómurinn frá því í fyrra komst að þeirri niðurstöðu að drengurinn hafi verið meðlimur í samtökunum en að ekki stafaði bein hryðjuverkahætta af honum og því var hann sýknaður af alvarlegustu kæruliðum ákæruvaldsins.

Vorið 2022 var drengurinn handtekinn og fannst eintak af Mein Kampf sjálfsævisögu Hitlers ásamt nasistafána og fleiri munum af því tagi. Meginþorri starfsemi Feuerkrieg Division fer fram á internetinu og hefur hinn ákærði tekið virkan þátt í henni. Á samskiptavettvangi samtakanna skrifaði hann meðal annars að Feuerkrieg Divison mætti taka sér Al-Kaída til fyrirmyndar „fyrir utan allt íslamska draslið.“

„Við getum orðið enn betri. Við viljum ekkert fljúga á neinn turn. Við viljum fljúga á kjarnorkuver,“ skrifar drengurinn og vísar til hryðjuverkaárásanna á Tvíburaturnana í september ársins 2001.

Drengurinn þvertekur fyrir að vera nasisti. Hann gengst við ummælum sínum á internetinu en þau hafi aðeins verið gerð í gamni. Hann hefur síðan um vorið 2022 setið í gæsluvarðhaldi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×