Innlent

„Þetta lítur svo­lítið út eins og eldstöðin sé að taka við sér aftur“

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Vatn við Bárðarbungu.
Vatn við Bárðarbungu. vísir/RAX

Jarðskjálftinn sem mældist í Bárðarbunguöskjunni í morgun gæti verið til marks um að eldstöðin sé að taka við sér. Þetta segir náttúruvársérfræðingur sem mælir aukna virkni á svæðinu. Skjálftinn var 5,4 að stærð og sá stærsti sem mælst hefur í Bárðarbungu frá eldgosinu í Holuhrauni árið 2015.

Jarðskjálftinn mældist klukkan rúmlega tuttugu mínútur í sjö þegar landsmenn voru flestir við fasta svefn. Nokkrir eftirskjálftar mældust í kjölfarið, sá stærsti 2,5 að stærð.

Hildur María Friðriksdóttir er náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni.

„Hann var 5,4 sem er stærsti skjálfri sem hefur mælst frá umbrotunum árið 2014 til 2015 þegar gaus í Holuhrauni þannig þetta lítur svolítið út eins og eldstöðin sé að taka við sér aftur og gæti verið upphafið að löngu ferli.“

Ferli sem getur tekið nokkur ár. Ekki er talið nauðsynlegt að auka vöktun á svæðinu enda er hún töluverð. Skjálftinn sem mældist í morgun fannst lítillega í flestum landshlutum.

En ef það fer allt af stað, hvernig gos verður í Bárðarbungu? 

„Það gæti náttúrulega verið annað gos eins og í Holuhrauni, hraungos, þar sem kvikugangur fer af stað og það gýs þarna frá eldstöðinni en svo er alltaf möguleiki að það gjósi í eldstöðinni sjálfri og þá gæti komið sprengigos, líkt og hefur komið í Grímsvötnum.“

Virkni eykst á svæðinu

Hún telur mjög ólíklegt að eitthvað gerist á næstunni. Engin hrina sé á svæðinu.

„Við erum bara að sjá núna að það hefur frá því í febrúar aukist jarðskjálftavirknin og hún er enn að aukast á svæðinu. Sömuleiðis sjáum við smá breytingu í jarðskorpuhreyfingum sem byrjaði reyndar snemma í fyrra þannig hún er hægt og rólega að taka við sér og vakna til lífsins eftir síðustu umbrot. En eins og ég segi gæti þetta verið upphafið að mjög löngu ferli,“ sagði Hildur María Friðriksdóttir, náttúruvársérfræðingur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×