Innlent

Fjögur börn meðal smitaðra af kíg­hósta

Bjarki Sigurðsson skrifar
Guðrún Aspelund er sóttvarnalæknir.
Guðrún Aspelund er sóttvarnalæknir. vísir/arnar

Fjögur börn eru meðal þeirra sem hafa greinst með kíghósta á höfuðborgarsvæðinu. Sóttvarnalæknir hvetur þá sem telja sig finna til einkenna að hafa samband við heilbrigðisstarfsfólk.

Kíghósti hefur greinst í sex einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu og eru einhverjir þeirra ótengdir. Því er talið að sýkingin hafi náð útbreiðslu á svæðinu en fyrir hafði kíghósti ekki greinst hér á landi síðan árið 2019.

Einkenni kíghósta eru vægt kvef og önnur einkenni þess, sem og slæm hóstaköst, þá sérstaklega á næturnar. Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir segir sýkinguna geta reynst börnum og þeim sem eru óbólusettir erfiðust. Hver sem er getur fengið kíghósta.

„Það er helst ungu börnin sem fá slæmar afleiðingar og slæmu hóstaköstin geta valdið öndunarstoppi í ungum börnum. Öndunarvegurinn þeirra er hlutfallslega lítill og þeim geta fylgt krampar, lungnabólga og þetta getur haft áhrif á heilasamstarfi og það geta orðið andlát vegna kíghósta,“ segir Guðrún. 

Hún segir veikindin geta verið ansi þrálát. Þeir sem telji sig hafa einkenni kíghósta hafi samband við heilbrigðisstarfsfólk í gegnum netspjall eða Heilsuveru.

„Ef að einkennin eru í samræmi við það eða viðkomandi verið í umgengni við einhvern sem hefur greinst þá er um að gera að hafa samband við sinn lækni eða heilbrigðisstarfsfólk og fá ráð. Hvort það sé tilefni til að taka sýni eða gera eitthvað frekar,“ segir Guðrún.

Meðal þeirra sex sem hafa greinst með kíghósta eru fjögur börn á aldrinum þriggja til fimmtán ára.

„Þessir einstaklingar eru allir heima, það er enginn það alvarlega veikur að þurfa að vera á sjúkrahúsi. En það eru allir með einkenni, sérstaklega hósta,“ segir Guðrún.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×