Innlent

25 þjóð­erni í Grundaskóla á Akra­nesi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Nemendur unnu fjölbreytt og skemmtileg verkefni á fjölmenningardögunum.
Nemendur unnu fjölbreytt og skemmtileg verkefni á fjölmenningardögunum. Aðsend

Það er búið að vera meira en nóg að gera hjá nemendum og starfsfólki Grundaskóla á Akranesi síðustu daga því þar voru haldnir fjölmenningardagar en nemendur frá tuttugu og fimm löndum eru í skólanum. Einn nemandi kemur frá Arúba, sem er eyja í Karíbahafi.

Í Grundaskóla eru um 700 nemendur og 160 starfsmenn. Dagana 16. til 18. apríl voru haldnir skemmtilegir þemavinnudagar um fjölmenningu, sem Valgerður Jóna Oddsdóttir, deildarstjóri hafði yfirumsjón með.

„Hér í skólanum eru 25 þjóðerni og við skiptum hópunum í 24, við skyldum Ísland frá og unnum ýmis verkefni. Þar á meðal vorum við að leggja áherslu á menningu og sérkenni hvers þjóðar en ekki síður þar sem við eigum sameiginlegt, okkur finnst það mikilvægt líka,” segir Valgerður Jóna.

Og tókst þetta ekki vel?

„Mjög vel og allir mjög ánægðir og það er sérstaklega gaman að sjá þegar eldi og yngri nemendur vinna saman og maður sér oft stjörnu í augunum á yngri börnunum því þau líta upp til þeirra eldri, þannig að þetta var alveg frábært.”

Valgerður Jóna Oddsdóttir, deildarstjóri í Grundaskóla á Akranesi, sem er mjög ánægð með hvað fjölmenningardagarnir í skólanum tókust vel.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Og verkefni þemadaganna voru mjög fjölbreytt.

„Það var mjög frjálst, við vorum með svona föst verkefni. Það lærðu allir sömu dansana og hver hópur gerði þjóðfána hvers lands og síðan lærðu þau eitt orð í því tungumáli, sem átti við og það var orðið vinur,” segir Valgerður Jóna.

Dagarnir tókust einstaklega vel.Magnús Hlynur Hreiðarsson

En hvað er sérstakasta landið sem nemandi kemur frá að mati Valgerðar Jónu?

„Já, ég myndi nú kannski nefna Arúba, það er mjög fámenn þjóð og hópurinn fékk föður barnsins til að koma, sem er frá Arúba og hann var með kynningu fyrir hópinn og ég held að hann hafi sagt að hann væri eini aðilinn hér á Íslandi frá Arúba, þannig að það var virkilega gaman.”

Farið var í skemmtilega skrúðgöngu í tilefni daganna um Akranes.Aðsend

Heimasíða skólansAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×