Fótbolti

Vikan varð enn verri fyrir Barcelona: Refsað fyrir nasistakveðjur og for­dóma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn Barcelona urðu sér og félaginu sínu til skammar í París.
Stuðningsmenn Barcelona urðu sér og félaginu sínu til skammar í París. Getty/DAX Images

Barcelona féll út úr Meistaradeildinni í fótbolta á miðvikudagskvöldið og í gær var félagið sektað af Knattspyrnusambandi Evrópu.

Stuðningsmenn Börsunga voru dæmdir fyrir það að nota nasistakveðjur og sýna kynþáttafordóma á fyrri leiknum á móti Paris Saint-Germain í síðustu viku. Sá leikur fór fram í París og endaði með sigri Katalóníuliðsins.

Barcelona fékk 25 þúsund evru sekt sem er um 3,8 milljónir íslenskra króna. Það var kannski ekki við bætandi í slæmu rekstrarumhverfi Barcelona liðsins sem glímir við mikla fjárhagaerfiðleika.

UEFA setti líka Barcelona í skilorðsbundið miðabann á næsta tímabili. Barcelona gæti misst réttinn á því að selja stuðningsmönnum sínum miða á útileik í Meistaradeildinni tímabilið 2024-25.

Barcelona þurfti einnig að borga PSG sjö þúsund evrur vegna skemmda sem stuðningsmenn Börsunga ollu á sætum sínum á Parc des Princes leikvanginum.

Barcelona vann fyrri leikinn 3-2 í París og komst í 1-0 í seinni leiknum. Liðið missti síðan mann af velli með rautt spjald og tapaði leiknum 4-1.

Alþjóða knattspyrnusambandið heldur aðalfund sinni í Bangkok í Tælandi í næsta mánuði og þar á kynna nýja herferð gegn kynþáttafordómum í fótbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×