Innlent

„Sér­lega sér­stakur“ hellir í Mý­vatns­sveit á­fram lokaður

Jón Þór Stefánsson skrifar
Hellirinn fannst fyrir rúmu ári síðan
Hellirinn fannst fyrir rúmu ári síðan Umhverfisstofnun

Hellir sem fannst í Mývatnssveit snemma árs í fyrra verður áfram lokaður, eða í sex mánuði til viðbótar til nítjánda október næstkomandi.

Þetta kemur fram á vef Umhverfisstofnunar, en hún tekur ákvörðunina um þetta. Þar segir að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hafi staðfest ákvörðunina.

„Þörf er á lengri tíma til að vinna að og leita varanlegra lausna sem snúa að verndun hellisins og telur Umhverfisstofnun því nauðsynlegt að hellirinn verði áfram lokaður,“ segir í tilkynningunni.

Hellirinn er sagður sérlega sérstakurUmhverfisstofnun

Fram kemur að samráð hafi verið haft við hagsmunaaðila þegar ljóst var að þörf væri á framlengingu lokunarinnar.

Meðan á lokuninni stendur getur stofnunin veitt leyfi fyrir ferðum sem tengjast könnun hellisins og rannsóknum á honum, en fullyrt er að öll önnur umferð verði óheimil.

Þá segir stofnuninni sé heimilt að opna svæðið fyrr ef ástandið sé metið þannig að ekki sé lengur talin hætta á skemmdum.

Hellirinn verður lokaður þangað til í október.Umhverfisstofnun

Þá segir að Umhverfisstofnun muni, á meðan lokunin er í gildi, hefja vinnu við friðlýsingu hellisins til að tryggja verndun útfellinga í honum til frambúðar.

Útfellingar eru útskýrðar á vef Umhverfisstofnunar, en þar er tekið fram að hellirinn sé mjög sérstakur.

„Jarðhitaútfellingar sem fundust í hellinum eru einsdæmi á Íslandi. Við greiningu kom í ljós að um er að ræða útfellingar kalsíumkarbónats (CaCO3) sem telst afar sjaldgæft í hraunhellum á heimsvísu. Það sem gerir þennan helli sérlega sérstakan er að útfellingarnar hafa þarna fallið úr jarðhita, en á heimsvísu myndast sambærilegar útfellingar í grunnvatni sem drýpur úr lofti.

Útfellingarnar dreifast um allan hellinn og hafa þar vaxið helst á gólfi og veggjum hans. Hellirinn er í hrauni sem talið er vera um 8000 ára gamalt og var hann einangraður frá yfirborði jarðar í árþúsundir. Viðvarandi jarðhiti í hellinum skapaði heitar og rakar aðstæður sem útfellingarnar mynduðust í.

Útfellingarnarnar eru því jarðmyndanir sem teljast hafa mjög hátt verndargildi sökum sérstöðu og fágætis og markmiðið með lokuninni er því að tryggja að jarðmyndanirnar í hellinum verði ekki fyrir óafturkræfu raski.“


Tengdar fréttir

Halda hellinum á­fram lokuðum

Umhverfisstofnun hefur ákveðið að loka nýfundnum helli við Jarðböðin í Mývatnssveit á ný. Markmiðið með lokuninni er að tryggja að jarðmyndanir í hellinum verði ekki fyrir óafturkræfu raski. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×