Fótbolti

„Þetta er töfrum líkast“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Belingham og Vinicius Jr. fagna í leikslok.
Belingham og Vinicius Jr. fagna í leikslok. Vísir/Getty

Jude Bellingham er kominn í undanúrslit Meistaradeildarinnar á sínu fyrsta tímabili með Real Madrid. Hann gæti mætt gömlu félögum sínum í Dortmund í úrslitum en fyrst þarf Real Madrid að komast í gegnum Bayern Munchen í undanúrslitum.

„Þetta er léttir því við lögðum svo mikið í þennan leik,“ sagði Bellingham í viðtali eftir leik.

„Ég hef spilað gegn City og verið nálægt því að vinna. Maður heldur að maður sé að fá eitthvað út úr leiknum og skyndilega kippa þeir því frá þér. Þú þarft að leggja mjög hart að þér til að vinna þá. Að vinna leikinn eru risastór verðlaun,“ bætti Bellingham við en leikmenn Real Madrid áttu í vök að verjast lengst af í leiknum og voru orðnir gríðarlega þreyttir undir lok framlengingar.

Bellingham var svo sannarlega í skýjunum eftir sigurinn en hann hefur verið frábær á tímabilinu.

„Þetta er ótrúlegt. Augnablik eins og þetta er töfrum líkast og þetta snýst um hugarfarið. Þegar þú nærð smáatriðunum réttum og færð þessi augnablik. Líkt og vítakeppnin, þegar strákarnir héldu ró sinni.“

Bellingham skoraði í vítakeppninni en bróðir hans var mættur í stúkuna til að sjá leikinn.

„Þetta eru töfrar. Þetta var fallegt. Bróðir minn er hér í dag og þetta er í fyrsta sinn sem hann hefur haft möguleikann á að sjá mig spila fyrir Madrid. Ég er mjög stoltur yfir því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×