Fótbolti

Romário tekur fram skóna til að spila með syninum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Romário með heimsmeistarastyttuna eftir sigur Brasilíu á Ítalíu í úrslitaleik HM 1994.
Romário með heimsmeistarastyttuna eftir sigur Brasilíu á Ítalíu í úrslitaleik HM 1994. getty/Oliver Multhaup

Brasilíska fótboltagoðsögnin Romário hefur tekið skóna af hillunni til að spila með syni sínum.

Romário lék síðast með America í nóvember 2009 en hefur nú rifið fram skóna á ný, 58 ára gamall.

Hann ætlar að spila við hlið sonar síns, Romárinho, með America sem leikur í næstefstu deild í Ríó. Romário ætlar þó ekki að spila með America í deildakeppninni.

Romário var einn besti leikmaður heims á sínum tíma. Hann gerði garðinn frægan með PSV Eindhoven og Barcelona og skoraði 55 mörk í sjötíu leikjum fyrir brasilíska landsliðið. 

Fimm þeirra komu á HM í Bandaríkjunum 1994 þar sem Brasilía stóð uppi sem sigurvegari. Romário var einnig valinn besti leikmaður mótsins sem og besti leikmaður heims af FIFA 1994.

Alls skoraði Romário 784 mörk á ferlinum og er talinn vera níundi markahæsti leikmaður fótboltasögunnar.

Eftir að ferlinum lauk sneri Romário sér að stjórnmálum. Hann var kjörinn þingmaður fyrir Ríó de Janeiro fyrir áratug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×