Erlent

Sonur Biden kemst ekki hjá réttar­höldum

Kjartan Kjartansson skrifar
Hunter Biden, sonur Joes Biden, með Jill Biden, stjúpmóður sinni í síðasta mánuði. Biden-hjónin hafa staðið með syni sínum sem hefur átt við fíknivanda að stríða um árabil.
Hunter Biden, sonur Joes Biden, með Jill Biden, stjúpmóður sinni í síðasta mánuði. Biden-hjónin hafa staðið með syni sínum sem hefur átt við fíknivanda að stríða um árabil. AP/Alex Brandon

Alríkisdómari hafnaði kröfu Hunters Biden, sonar Bandaríkjaforseta, um að vísa frá ákærum vegna skotvopnalagabrota í dag. Réttarhöld yfir Biden gætu nú hafist í sumar í miðri kosningabaráttu föður hans.

Hunter Biden er ákærður fyrir að ljúga um vímuefnaneyslu sína þegar hann keypti sér skammbyssu árið 2018 og ólöglega vörslu á byssunni. Hann er fyrsta barn sitjandi Bandaríkjaforseta sem er ákært fyrir glæp og gæti átt yfir höfði sér allt að tuttugu ára fangelsisdóm verði hann fundinn sekur, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Lögmenn Biden kröfðust þess að ákærunum væri vísað frá vegna þess að lögin sem þær byggðu á stæðust líklega ekki stjórnarskrá eftir að Hæstiréttur Bandaríkjanna víkkaði út réttindi fólks til skotvopnaeignar árið 2022. 

Þá færðu verjendurnir rök fyrir því að Biden hefði gert bindandi samkomulag við saksóknara um að hann yrði ekki ákærður fyrir brotin. Því samkomulagi var rift síðasta sumar eftir að í ljós kom að sérstakur rannsakandi sem rannsakaði Biden og verjendur hans lögðu ekki sama skilning á efni þess.

Eins og stendur eiga réttarhöldin í byssumálinu að hefjast 3. júní. Biden er einnig ákærður fyrir skattvik í öðru dómsmáli en það á að hefjast 20. júní. Þar á hann yfir höfði sér allt að sautján ára fangelsisdóm.

Donald Trump, mótherji Joes Biden, á sjálfur yfir höfði sér fjögur sakamál. Hann er meðal annars ákærður í tengslum við árás stuðningsmanna hans á þinghúsið 6. janúar 2021, ólöglega meðferð á ríkisleyndarmálum og ólöglegar greiðslur til fyrrverandi klámstjörnu. Réttarhöld í síðastnefnda málinu eiga að hefjast í New York á mánudag.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×