„Við höfum aldrei nokkru sinni séð svona mikinn fjölda saman kominn á torginu. Troðfullt af fólki á öllum hæðum torgsins að fylgjast með og allir í hátíðarskapi og virtust skemmta sér svo vel enda kannski ekki annað hægt þegar að allar þessar stórstjörnur sem við eigum hér á Seltjarnarnesi koma saman til að heiðra forsetahjónin, afmæli bæjarins og bæjarbúa alla,“ segir María Björk Óskarsdóttir, sviðsstjóri hjá Seltjarnarnesbæ og skipuleggjandi fimmtíu ára afmælisins í samtali við Vísi.
María Björk segir að dagurinn í heild sinni hafi heppnast vel. Hápunktur dagsins hafi verið hátíðin á Eiðistorgi, þar sem fremstu tónlistarmenn landsins stigu á stokk og skemmtu gestum.
Um fimm þúsund manns mættu á viðburðinn sem jafnast á við heildaríbúafjölda Seltjarnarnesbæjar. Silla Páls ljósmyndari fangaði stemninguna meðal gesta sem er nánast á áþreifanleg.



















