Stál í stál í Lundúnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr leik kvöldsins.
Úr leik kvöldsins. EPA-EFE/ANDY RAIN

Arsenal og Bayern München gerðu 2-2 jafntefli í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeild Evrópu. Það er því allt undir í síðari leik liðanna sem fram fer í Þýskalandi þann 17. apríl.

Heimamenn hafa verið frábærir að undanförnu og eru í bullandi toppbaráttu á Englandi á meðan gestirnir eru í þann mund að horfa á annað lið verða Þýskalandsmeistari í fyrsta skipti í meira en áratug. Það kom því lítið á óvart þegar Skytturnar komust yfir snemma leiks. Þar var að verki Bukayo Saka eftir undirbúning Ben White.

Skömmu áður en Skytturnar komust yfir fékk vinstri bakvörður Bayern, Alphonso Davies, gult spjald sem þýðir að hann verður hvergi sjáanlegur þegar liðin mætast í Þýskalandi.

Hvað varðar forystu heimamanna þá entist hún aðeins í sex mínútur. Fyrrverandi leikmaður Arsenal, Serge Gnabry, sá til þess. Leon Goretzka renndi boltanum á Gnabry sem kláraði færið af mikilli yfirvegun og kom David Raya engum vörnum við í marki heimamanna. 

Það var svo þegar rétt rúmlega hálftími var liðinn sem vítaspyrna var dæmd. Leroy Sané fékk boltann við miðlínu og tók á rás. Hann hristi af sér hvern varnarmann Arsenal á fætur öðrum áður en það var brotið á honum innan vítateigs. 

Harry Kane, fyrrverandi leikmaður Tottenham Hotspur, steig á punktinn og kom Bæjurum yfir. Reyndist það síðasta mark fyrri hálfleiks og staðan 1-2 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Aðeins eitt mark var skorað í síðari hálfleik. Það gerði Leandro Trossard eftir undirbúning Gabríel Jesús og staðan orðin 2-2. Fleiri mörk voru ekki skoruð og það er því til alls að vinna á Allianz-vellinum þann 17. apríl.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira