Hluti umsóknanna þarfnast sérstakrar skoðunar og tekur lengri tíma að afgreiða hann, að því er segir í tilkynningu frá Þórkötlu. Áfram verður hægt að sækja um að selja félaginu eignir út þetta ár.
Þórkatla var stofnuð í febrúar til þess að annast kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík í kjölfar jarðhræringanna þar, umsýslu þess og ráðstöfun fyrir hönd stjórnvalda. Gert er ráð fyrir að fjárfestingin nemi tugum milljarða króna.
Umfang verkefnisins er sagt hafa kallað á talsverðan undirbúnig og þróun verkferla við frágang kauptilboða, þinglýsingar og útborgun til seljenda. Áhersla sé lögð á að vinna verkefnið hratt til að draga úr óvissu þeirra sem eiga fasteignir í bænum og þurfa að finna sér nýtt framtíðarhúsnæði.
Eigendur um níu hundruð íbúða í þéttbýli í Grindavík geta nýtt sér úrræðið. Þegar opnað var fyrir umsóknir í síðasta mánuði var sagt að ferlið tæki tvær til fjórar vikur.