Fótbolti

Real Madrid vill spila „innan­húss“ á móti Man City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola og lærisveinar hans gætu spilað við nýjar aðstæður á Santiago Bernabeu í kvöld.
Pep Guardiola og lærisveinar hans gætu spilað við nýjar aðstæður á Santiago Bernabeu í kvöld. Getty/Alberto Gardin/Angel Martinez

Spænska félagið Real Madrid hefur sent inn beiðni til Knattspyrnusambands Evrópu um að fá að loka þakinu á Santiago Bernabeu leikvanginum þegar liðið mætir Manchester City í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Liðin mætast í fyrri leik sínum í kvöld en leikurinn hefst klukkan 19.00 á íslenskum tíma og verður sýndur beint á Vodafone Sport stöðinni.

Þetta verður þriðja árið í röð sem liðin mætast í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar og það lið sem hefur unnið í hinum viðureignum hefur farið alla leið og unnið titilinn.

Manchester City sló Real Madrid út 5-1 samanlagt í fyrra og hefndi þar fyrir grátlegt tap árið á undan.

Real Madrid er nýbúið að gera upp Santiago Bernabeu leikvanginn og meðal nýjunganna er að nú er hægt að loka þakinu á vellinum.

ESPN hefur heimildir fyrir því að Real Madrid vilji einmitt loka þakinu fyrir City leikinn og spila því „innanhúss“ í þessum mikilvæga leik.

Ekki er ástæðan þó að verja leikmenn og áhorfendur fyrir verði og vindum því spáin í Madrid í kvöld er heiðskírt og fimmtán gráðu hiti.

Real Madrid vill aftur á móti auka lætin og stemmninguna með því að loka leikvanginum en hann tekur 85 þúsund manns í sæti eftir breytingarnar.

UEFA mun taka endanlega ákvörðum um beiðni Real Madrid á tæknifundi fyrir leikinn en hann er haldinn klukkan 15.30 í dag. Dómari leiksins, Francois Letexier, mun koma að þeirri ákvörðun.

Stóra reglan er að leikvangurinn verður að vera eins í lok leiks og þegar leikurinn byrjaði. Eina undantekningin ef vont veður þvingar fólk til að loka þaki á leikvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×