Um­fjöllun: Ís­land - Pól­land | Ferða­lagið á fimmta EM hófst á öruggum sigri

Hjörtur Leó Guðjónsson og Ágúst Orri Arnarson skrifa
Íslensku stelpurnar spiluðu virkilega vel í dag.
Íslensku stelpurnar spiluðu virkilega vel í dag. Vísir/Hulda Margrét

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta vann afar öruggan 3-0 sigur er liðið tók á móti því pólska á Kópavogsvelli í dag. Ferðalagið á fimmta Evrópumót stelpnanna hófst því á á virkilega jákvæðan hátt.

Leikurinn var í góðu jafnvægi á upphafsmínútunum og bæði lið tóku sér nokkrar mínútur í að fóta sig. 

Pólska liðið fékk fyrsta færi leiksins þegar fyrirgjöf frá hægri kanti fann lappirnar á þeirra hættulegasta leikmanni, Ewu Pajor. Fanney Inga Birkisdóttir varði hins vegar meistaralega áður en Pajor tók frákastið og setti boltann í þverslána og yfir.

Stuttu síðar fengu íslensku stelpurnar sitt fyrsta færi þegar Sveindís Jane Jónsdóttir fékk háa sendingu inn fyrir varnarlínu Póllands. Sveindís lyfti boltanum yfir Katarzynu Kiedrzynek í markinu en skotið framhjá.

Íslenska liðið vildi svo fá víti þegar Karólína Lea Vilhjálmsdóttir var tekin niður innan vítateigs á 38. mínútu, en ekkert dæmt. 

Wiankowska átti frábæra tæklingu til að stöðva Karólínuvísir / hulda margrét

Íslensku stelpurnar héldu þó áfram og uppskáru fyrsta mark leiksins þegar Glódís Perla Viggósdóttir skallaði boltann fyrir markið eftir fyrirgjöf. Bryndís Arna Níelsdóttir átti slakt skot að marki sem endaði með því að Malgorzata Mesjaszvarð fyrir því óláni að skalla boltann í eigið net þegar þrjár mínútur voru eftir af fyrri hálfleik.

Fyrirliðinn fagnar með Bryndísi sem átti stóran hlut í fyrsta markinuvísir / hulda margrét

Pólska liðið tók miðju eftir markið og íslensku stelpurnar voru fljótar að vinna boltann. Þær nýttu meðbyrinn og aðeins um mínútu eftir sjálfsmarkið skallaði Diljá Ýr Zomers boltann í netið eftir fyrirgjöf frá Sveindísi Jane Jónsdóttir.

Diljá Ýr kom boltanum í netið mínútu síðarvísir / hulda margrét

Glódís Perla Viggósdóttir fékk svo algjört dauðafæri til að bæta þriðja markinu við fyrir hálfleik, en lét verja frá sér og Ísland fór því með 2-0 forystu inn í hálfleikshléið.

Íslensku stelpurnar höfðu svo góða stjórn á leiknum í síðari hálfleik og gáfu fá færi á sér. Sveindís Jane hélt áfram að ógna marki Pólverja og Karólína Lea fékk einnig færi til að auka forskot Íslands enn frekar.

Þær tvær sáu einmitt til þess að þriðja íslenska markið leit dagsins ljós þegar Karólína fann Sveindísi inni á teignum. Sveindís tók vel á móti boltanum, sneri pólska varnarmanninn snyrtilega af sér og kláraði vel í nærhornið.

Sveindís Jane fagnar marki sínuvísir / hulda margrét
Innlifun og ákefðvísir / hulda margrét

Það leit svo heldur út fyrir að íslenska liðið myndi bæta í frekar en að það pólska myndi minnka muninn. Pólverjar fengu einstaka hálffæri, ef hálffæri má kalla, en Ísland hafði að mestu leyti stjórn á því sem fram fór inni á vellinum. Þrátt fyrir góð færi íslenska liðsins á lokakaflanum tókst þeim ekki að bæta fjórða markinu við og niðurstaðan varð að lokum afar öruggur 3-0 sigur Íslands.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira