Erlent

Fyrsti lifandi svín­snýrna­þeginn út­skrifaður af spítalanum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Slayman ásamt unnustu sinni og læknum sínum.
Slayman ásamt unnustu sinni og læknum sínum. MGH

Fyrsti maðurinn til að fá grætt í sig svínsnýra hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi. Hinn 62 ára Richard „Rick“ Slayman, sem þjáist af nýrnabilun á lokastigi, horfir bjartsýnn til framtíðar og segir heilsu sína ekki hafa verið betri í langan tíma.

Nýrað úr erfðabreyttu svíni var grætt í Slayman í fjögurra klukkustunda aðgerð á Massachusetts General Hospital í Boston í mars síðastliðnum. Aðgerðin gekk vel og hrósuðu læknar Slayman fyrir hugrekki hans og vilja til að feta ótroðnar slóðir í þágu læknavísindanna.

Nýru úr svínum hafa áður verið grædd í einstaklinga sem hafa verið úrskurðaðir heiladauðir en þetta er í fyrsta sinn sem svínsnýra er grætt í lifandi einstakling. Tilraunir til að erfðabreyta svínum til að draga úr líkunum á því að mannslíkaminn hafni líffærum þeirra hafa staðið yfir í um 20 ár.

„Ég er spenntur fyrir því að verja tíma með fjölskyldu minni, vinum og ástvinum, laus við byrðar blóðskilunar sem hefur komið niður á lífsgæðum mínum í mörg ár,“ sagði Slayman þegar hann var útskrifaður.

Þá þakkaði hann læknunum sínum og öllum þeim sem höfðu samband við hann, ekki síst þeim sem sjálfir væru á biðlista eftir nýra. „Dagurinn í dag markar nýtt upphaf ekki bara fyrir mig heldur líka fyrir þá.“ sagði Slayman.

Vonir standa til að líffæraígræðslur með líffærum úr dýrum muni í fyllingu tímans útrýma biðlistum eftir líffærum, sem eru langir. Í Bandaríkjunum eru um 100 þúsund manns á biðlista, flestir eftir nýra, og í Bretlandi um 5.200 manns.

Vísir greindi frá því í janúar 2022 að læknar hefðu grætt svínshjarta í lifandi mann í fyrsta sinn. Líffæraþegin, David Bennett, lést í júlí sama ár. Hann var 57 ára. Margþættar ástæður leiddu til dauða Bennett en læknar sögðu huggun harmi að líffærahöfnun hefði ekki verið ein þeirra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×