Fótbolti

Réðu nýjan lands­liðs­þjálfara án vitundar knatt­spyrnu­sam­bandsins

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Marc Brys er nýr landsliðsþjálfari Kamerún. 
Marc Brys er nýr landsliðsþjálfari Kamerún.  Isosport/MB Media/Getty Images

Kamerúnska knattspyrnusambandið hefur lýst yfir mikilli undrun eftir að íþróttamálaráðuneyti landsins réði Marc Brys sem nýjan þjálfara karlalandsliðsins.

Brys er 61 árs gamall Belgi sem var síðast þjálfari OH Leuven og var þar meðal annars þjálfari íslenska landsliðsmannsins Jóns Dags Þorsteinssonar. Hann lét af störfum hjá Leuven á síðasta ári, en hefur nú tekið við þjálfun kamerúnska karlalandsliðsins af fyrrum leikmanni Liverpool og West Ham, Rigobert Song.

Þrátt fyrir að kamerúnska karlalandsliðið í knattspyrnu sé nú komið með nýjan þjálfara virðist knattspyrnusamband landsins ekki hafa vitað af því að ráðningin væri yfirvofandi. Sambandið segir að ákvörðunin hafi verið tekin einhliða.

„Kamerúnska knattspyrnusambandið frétti, á sama tíma og aðrir Kamerúnar, af ráðningu í ábyrgðarstaf innan karlalandsliðsins í fótbolta,“ segir í yfirlýsingu sambandsins á samfélagsmiðlum.

Knattspyrnusambandið bætir einnig við að það ætli sér að „varpa ljósi á þessa sorglega ástand“ og að það muni tafarlaust hafa samband við viðeigandi aðila.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×