Fótbolti

Kol­beinn sá strax rautt en Stefan og Túfa fögnuðu í fyrsta leik

Sindri Sverrisson skrifar
Stefan Ljubicic er mættur til Svíþjóðar og fékk sigur í fyrsta leik.
Stefan Ljubicic er mættur til Svíþjóðar og fékk sigur í fyrsta leik. Vísir/Diego

Boltinn er byrjaður að rúlla í sænska fótboltanum og nokkrir Íslendingar voru á ferðinni í dag, í efstu og næstefstu deild karla.

Þjálfarinn Srdjan Tufegdzic, eða Túfa, sem meðal annars þjálfaði hjá KA, Grindavík og Val hér á landi, fagnaði sigri í fyrsta deildarleiknum með Skövde þegar liðið vann Örebro 1-0 á útivelli í sænsku 1. deildinni.

Túfa fékk framherjann Stefan Alexander Ljubicic frá Keflavík fyrir skömmu og hann kom inn á sem varamaður á 68. mínútu, skömmu áður en sigurmark Skövde kom.

Valgeir Valgeirsson lék allan leikinn fyrir Örebro en hann hefur spilað með liðinu frá árinu 2022.

Kolbeinn Þórðarson átti hins vegar martraðarbyrjun í fyrsta leik sínum með IFK Gautaborg en hann fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt strax á 27. mínútu, í leik gegn Djurgården í sænsku úrvalsdeildinni. Gestirnir frá Djurgården nýttu sér þetta og komust í 4-0 áður en Gautaborg minnkaði muninn í 4-1 skömmu fyrir leikslok.

Birnir Snær Ingason, fyrrverandi leikmaður meistara Víkings, varð sömuleiðis að sætta sig við tap, í sínum fyrsta deildarleik eftir að hafa haldið af landi brott í atvinnumennsku. Hann lék allan leikinn með Halmstad í 3-0 tapi á útivelli gegn Sirius í sænsku úrvalsdeildinni. Gísli Eyjólfsson var hins vegar ekki með Halmstad.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×