Fótbolti

Napoli fékk skell á heima­velli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gianluca Scamacca fagnar marki sínu fyrir Atalanta í dag.
Gianluca Scamacca fagnar marki sínu fyrir Atalanta í dag. Getty/Francesco Pecoraro

Atalanta náði í dag fimm stiga forskoti á Napoli í baráttunni um sjötta sætið í Seríu A í ítalska fótboltanum og um leið sæti í Evrópukeppninni á næstu leiktíð.

Atalanta heimsótti Napoli á Diego Armando Maradona leikvanginn og vann 3-0 sigur. Napoli var meira með boltann, skaut meira að marki og fékk mun fleiri góð færi en gestirnir nýttu færin sín vel.

Eftir leikinn er Ítalíumeistarar Napoli aðeins í sjöunda sæti með 45 stig en Atalanta er í sjötta sætinu með 50 stig.

Þetta var þriðji deildarleikur Napoli í röð þar sem liðið nær ekki landa sigri og liðið er nú á góðri leik með að missa ekki aðeins af Meistaradeildinni á næstu leiktíð heldur öllum Evrópukeppnunum.

Rússinn Aleksey Miranchuk var maðurinn á bak við sigur Atalanta. Hann skoraði fyrsta markið á 26. mínútu og lagði upp annað markið fyrir Gianluca Scamacca á lokamínútu fyrri hálfleiks.

Þriðja markið skoraði síðan Teun Koopmeiners á 88. mínútu leiksins.

Napoli liðið var án Khvicha Kvaratskhelia sem meiddist í leiknum þar sem hann og félagar hans í georgíska landsliðinu tryggði þjóð sinn sæti á EM í fyrsta sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×