Innlent

Hamfaragámur Bónus tryggir kældan mat í neyðar­á­standi

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Eimarar, varmadælur og dísilrafstöð sjá búðinni fyrir rafmagni og kyndingu steðji vatns- eða rafmagnsleysi aftur að.
Eimarar, varmadælur og dísilrafstöð sjá búðinni fyrir rafmagni og kyndingu steðji vatns- eða rafmagnsleysi aftur að. Auðunn Pálsson

Svokallaður hamfaragámur hefur verið tekinn í gagnið við verslun Bónus í Njarðvík en búnaður í gámnum mun tryggja matvælaöryggi íbúa Suðurnesja ef til vatns- eða rafmagnsleysis kemur vegna eldgosa. 

Auðunn Pálsson hreppstjóri Bónuss á Suðurnesjum rekur málið til febrúarmánaðar þegar heitavatnslögn sem lá frá Svartsengi til Reykjanesbæjar fór í sundur eftir að hraun flæddi yfir lögnina.

„Og misstum hitann. Og við brugðumst náttúrlega bara við því með því að safna saman hitablásurum og keyrðum hitablásara með rafmagns- og dísilvélum,“ segir Auðunn. 

Auðunn segir ekkert lát á jarðhræringum hafa gert það að verkum að stjórnendur Bónus ákváðu að hrinda svokölluðum hamfaragámi í framkvæmd. Í honum eru eimarar, varmadælur og annar búnaður sem tryggir rafmagn, heitt vatn og kalt í búðinni ef til neyðarástands kemur. 

Þannig sé hægt að tryggja fullt matvælaöryggi íbúa Suðurnesja í vatns- eða rafmagnsleysi.

„Við erum sjálfbær ef þannig færi, sem við vonum að geri ekki. En það virðist náttúrlega ekkert lát vera á þessu.“ 

Auðunn segir tilfinninguna góða meðal starfsmanna og viðskiptavina. „Þetta er svolítið svona öðruvísi, að hafa komið þessu fyrir og vera klárir í meira,“ segir Auðunn að lokum. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×