Fótbolti

„Allt í einu er maður farinn að heyra að hann geti verið næsti Pele“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Endrick fagnar sigurmarki sínu á Wembley leikvanginum en þetta var hans fyrsta landsliðsmark.
Endrick fagnar sigurmarki sínu á Wembley leikvanginum en þetta var hans fyrsta landsliðsmark. AP/Alastair Grant

Spænski landsliðsþjálfarinn Luis de la Fuente hefur fengið góða reynslu á síðustu mánuðum að vera með kornunga leikmenn í sínu liði og hann varar Brasilíumenn við því að setja ekki of mikla pressu á hinn sautján ára gamla Endrick.

Endrick skoraði sitt fyrsta landsliðsmark þegar hann tryggði Brasilíu 1-0 sigur á Englandi á Wembley á dögunum en hann var þá sá yngsti til að skora fyrir brasilíska landsliðið síðan að Ronaldo skoraði á móti Íslandi árið 1994.

Umræða um Endrick fór á fulla ferð í heimalandinu eftir leikinn og væntingarnar eru gríðarlegar. Endrick er líka á leiðinni til Real Madrid í nánustu framtíð. Spánn og Brasilía mætast í vináttulandsleik í kvöld.

„Hann er bara sautján ára leikmaður. Hann er mjög góður fótboltamaður og við erum líka með mjög góða fótboltamenn á hans aldri í okkar landsliði,“ sagði Luis de la Fuente. Í spænska landsliðinu eru Barcelona strákarnir Lamine Yamal (16 ára) og Pau Cubarsí (17 ára).

„Í sambandi við þessa ungu leikmenn og út frá minni reynslu þá verður að gefa þeim tíma og fara varlega með þá,“ sagði De la Fuente.

„Allt i einu er maður farinn að heyra að hann [Endrick] geti verið næsti Pele. Guð minn góður,“ sagði De la Fuente.

„Það er alltof mikil pressa á stráknum. Slíkt býr oft til mikið aukastress og það eru settar kröfur á þessa stráka sem þeir hafa ekki aldur eða þroska til að ráða við,“ sagði De la Fuente.

„Með þessu er verið að gera þeim mikinn óleik. Við verðum að leyfa þeim að þróa sinn leik á æfingasvæðinu og það kemur að þeim tíma þegar við getum sett á þá alvöru kröfur. Þeir ráða engan veginn við svona pressu á þessum aldri,“ sagði De la Fuente.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×