Fótbolti

Frestuðu leik í undan­keppni HM vegna bakteríu­hræðslu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wataru Endo er á leiðinni aftur til Liverpool eftir að leiknum við Norður Kóreu var frestað.
Wataru Endo er á leiðinni aftur til Liverpool eftir að leiknum við Norður Kóreu var frestað. Getty/Robbie Jay Barratt

Ekkert varð að leik Norður Kóreu og Japans í undankeppni HM karla í fótbolta. Engar formlegar ástæður voru gefnar fyrir því en erlendir fréttamenn hafa reyna að komast að hinu sanna.

Samkvæmt fréttum frá Japan þá var leiknum frestað vegna bakteríuhræðslu í Norður Kóreu.

Það átti að spila leikinn á næsta þriðjudag. Í gær voru fréttir af því að mögulega þyrfti að spila leikinn á hlutlausum velli. Leiknum var síðan frestað í dag.

Knattspyrnusamband Asíu segir ástæðuna vera ófyrirséðar kringumstæður og að ákvörðunin hafi verið tekin í samráði við Alþjóða knattspyrnusambandið.

Norður Kórea gaf það út í gær að landið hefði ekki getað hýst leikinn í höfuðborginni Pyongyang en engin ástæða var gefin fyrir því.

Japanska fréttastofan Kyodo sló því aftur á móti upp að Norður-Kórea vildi ekki að leikurinn færi fram í landinu af ótta við mögulega bakteríusýkingu.

Norður Kórea hefur spilað þrjá leiki í undankeppninni en alla á útivelli, í Sýrlandi, í Mjanmar og í Japan. Liðið á eftir að spila heimaleiki sína við allar þrjár þjóðirnar og fyrsti leikurinn átti að fara fram 26. mars næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×