Fótbolti

Xavi sá rautt þegar Bar­ca vann stórt í Madríd

Smári Jökull Jónsson skrifar
Fermin Lopez heldur betur kátur eftir að hafa skorað þriðja mark Barcelona.
Fermin Lopez heldur betur kátur eftir að hafa skorað þriðja mark Barcelona. Vísir/Getty

Barcelona gerði góða ferð til höfuðborgarinnar Madríd þegar liðið vann öruggan sigur á Atletico Madrid í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Liðin voru fyrir leikinn í dag í 3. og 5. sæti deildarinnar en Barcelona átti möguleika á að fara upp í 2. sætið eftir að Girona tapaði 1-0 gegn Getafe. Bæði liðin eru komin áfram í Meistaradeild Evrópu en Atletico Madrid tryggði sér sæti í 8-liða úrslitum á eftirminnilegan hátt í vikunni með sigri á Inter eftir vítakeppni.

Í dag var það hins vegar Barcelona sem var betri aðilinn. Eftir nokkuð rólega byrjun var það Joao Felix sem kom Barcelona yfir á 38. mínútu með marki gegn sínum gömlu félögum eftir sendingu frá Robert Lewandowski.

Undir lok fyrri hálfleiks fékk knattspyrnustjóri Barcelona Xavi að líta rauða spjaldið fyrir tuð í dómaranum. Leikmennirnir létu það hins vegar ekkert á sig fá að Xavi væri ekki til staðar í hálfleikshléinu. Þeir byrjuðu síðari hálfleikinn á því að tvöfalda forystuna þegar Lewandwoski skoraði eftir sendingu Raphinha.

Á 65. mínútu var svo komið að Fermin Lopez að skora. Hann fékk þá sendingu frá Lewandowski og skoraði með skalla. Staðan orðin 3-0 og hinn magnaði Lewandowski búinn að koma að öllum mörkum Barcelona.

Í uppbótartíma fékk Nahuel Molina leikmaður Atletico Madrid rautt spjald en það skipti litlu og Barcelona fagnaði sigrinum.

3-0 urðu lokatölur leiksins og Barcelona fer þar með upp fyrir Girona í töflunni og er átta stigum á eftir Real Madrid sem situr í toppsæti deildarinnar. Atletico er í fimmta sæti og hefur aðeins misst flugið í síðustu deildarleikjum, eru aðeins með tvo sigra í síðustu fimm leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×