Innlent

Engir lang­tíma­kjara­samningar án gjald­frjálsra skóla­mál­tíða

Bjarki Sigurðsson skrifar
Vilhjálmur Birgisson er formaður Starfsgreinasambandsins.
Vilhjálmur Birgisson er formaður Starfsgreinasambandsins. Vísir/Vilhelm

Formaður Starfsgreinasambandsins segir það ekki koma til greina að sleppa gjaldfrjálsum skólamáltíðum í langtímakjarasamningum við sveitarfélögin. Hann sakar Sjálfstæðismenn um að notfæra sér verkalýðshreyfinguna í pólitískri skák.

Í grein sem birt var í Morgunblaðinu á fimmtudag gagnrýndu 26 oddvitar Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórnum landsins formann Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrir að fara gegn vilja þeirra í aðkomu sinni að kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Sjálfstæðismennirnir eru mjög svo á móti því að skólamáltíðir verði gerðar gjaldfrjálsar í þeim kjarasamningum sem verið er að semja um.

Kemur ekki til greina að sleppa máltíðunum

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, er ekki sáttur með Sjálfstæðismennina og segir þá vera að notfæra sér verkalýðsbaráttuna í pólitískri skák. Verkalýðshreyfingin á eftir að semja við Samband íslenskra sveitarfélaga og segir Vilhjálmur að það komi ekki til greina að sleppa gjaldfrjálsum skólamáltíðum í langtímakjarasamningum.

„Ég tel að 99 prósent sveitarfélaga munu efna þetta loforð að fullu. Ef það verða einhver einstök sveitarfélög sem ekki munu gera það, þá klárlega verður samningurinn hjá því sveitarfélagi bara laus í febrúar á næsta ári,“ segir Vilhjálmur.

Umtalsverður ávinningur

Hann segir gjaldfrjálsu skólamáltíðirnar skila sér heilmiklu til heimilanna.

„Fríar skólamáltíðir skipta okkur gríðarlega miklu máli. Við erum mjög hrifin af þessari hugmyndafræði sem þarna er. Hún mun skila okkar fólki umtalsverðum ávinningi. Það liggur fyrir að hjón með tvö börn á grunnskólastigi séu að spara sér þarna 24 þúsund krónur á mánuði. Til að vera með 24 þúsund krónur í ráðstöfunartekjur þá þyrftum við að hækka laun hér um allt að 40 þúsund krónur á mánuði þannig þetta er umtalsverður ávinningur,“ segir Vilhjálmur. 

Vilhjálmur skrifaði einnig pistil um málið á Facebook-síðu sína sem lesa má hér fyrir neðan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×