Erlent

„Rotturnar eru að éta marijúanað okkar“

Samúel Karl Ólason skrifar
Anne Kirkpatrick, lögreglustjóri New Orleans.
Anne Kirkpatrick, lögreglustjóri New Orleans. AP/Brett Duke

Rottur hafa komist í kannabisefni í sönnunargagnageymslu í höfuðstöðvum lögreglunnar í New Orleans í Bandaríkjunum. Lögreglustjórinn segir rotturnar allar útúrdópaðar en byggingin er sögð í verulega slæmu ásigkomulagi.

„Rotturnar eru að éta marijúanað okkar. Þær eru allar í vímu,“ sagði Anne Kirkpatrick, lögreglustjóri New Orleans á nýlegum fundi með borgarstjórn borgarinnar. Hún sagði rottur víðsvegar um höfuðstöðvar lögreglunnar og að lögregluþjónar hefðu fundið rottskít á skrifborðum sínum.

Umrædd bygging hefur hýst lögregluna í New Orleans frá 1968 en samkvæmt AP fréttaveitunni stendur til að flytja lögregluna um set. Kirkpatrick tók við sem lögreglustjóri í október og hefur það verkefni að finna nýjar höfuðstöðvar fyrir lögregluna verið í forgangi hjá henni.

Talsmenn lögreglunnar hafa ekki svarað fyrirspurnum blaðamanna fréttaveitunnar um það hvernig það uppgötvaðist að rottur hefðu étið fíkniefnin eða hvort það hefði haft áhrif á einhverjar rannsóknir lögreglunnar.

Ekki liggur fyrir í hvaða formi umrætt marijúana var þegar rotturnar átu það.

Kirkpatrick segir ástandið ekki líðandi. Loftræstikerfi og lyftur í byggingunni virki sjaldan og mygla og kakkalakkar finnist víða í höfuðstöðvunum. Ástandið komi bæði niður á starfsanda og nýtt starfsfólk vilji ekki vinna í húsinu.

Þá segir hún að ræstitæknum lögreglunnar sé ekki um að kenna. Þau eigi verðlaun skilið fyrir að reyna að halda byggingunni eins hreinni og þau geta.

Meðal þess sem verið er að skoða er að leigja byggingu fyrir lögregluna til tíu ára. Slíkt myndi kosta 7,6 milljónir dala og gefa þeim sem að málinu koma lengri tíma til að finna varanlega lausn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×