Fótbolti

Guð­ný orðin leik­maður Kristian­stad

Aron Guðmundsson skrifar
Guðný í leik með íslenska landsliðinu
Guðný í leik með íslenska landsliðinu Getty/Gerrit van Cologne

Íslenska landsliðskonan í fótbolta, Guðný Árnadóttir hefur samið við sænska úrvalsdeildarfélagið Kristianstad og gengur hún til liðs við félagið frá ítalska liðinu AC Milan. Þetta staðfestir Kristianstad í fréttatilkynningu á miðlum sínum.

Guðný hefur verið á mála hjá AC Milan síðan árið 2020 og hefur frá þeim tíma einnig farið á láni til Napólí. Þar áður hafði hún verið á mála hjá FH og Val hér á landi.

Hjá Kristianstad hittir Guðný fyrir íslensku leikmennina Hlín Eiríksdóttur og Kötlu Tryggvadóttur. 

„Við erum ánægð með að hafa náð samningum við Guðnýju,“ segir Lovisa Ström hjá Kristianstad. Guðný komi ekki alveg blaut á bakvið eyrun til félagsins þar sem að hún fór á reynslu hjá Kristianstad árið 2016.

„Það auðveldar þessi skipti bæði fyrir hana sem og okkur hér hjá Kristianstad. Við erum að fá góðan varnarmann sem getur leyst fyrir okkur nokkrar stöður á vellinum. Hún eykur gæðin sem búa í okkar liði sem og eykur breiddina.“

Sjálf segir Guðný, sem á að baki 26 A-landsleiki fyrir Íslands hönd, að þessi skipti yfir til Kristianstad séu þess valdandi að geta hjálpað henni að þróast sem leikmaður. 

„Ég heillast af spilamennsku liðsins og er spennt fyrir því að verða hluti af félaginu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×