Fótbolti

Reiknar ekki með endur­komu Gylfa Þórs

Aron Guðmundsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson í leik með Lyngby.
Gylfi Þór Sigurðsson í leik með Lyngby. Getty/Lars Ronbog

David Nielsen, nýráðinn þjálfari Íslendingaliðs Lyngby í dönsku úrvalsdeildinni. Reiknar ekki með því að Gylfi Þór snúi aftur í leikmannahóp liðsins er hann hefur jafnað sig af meiðslum sem hafa verið að plaga hann. 

Frá þessu greinir Nielsen í samtali við danska miðilinn Bold og er hann þar með annar þjálfari Lyngby á stuttum tíma sem segist ekki reikna með endurkomu Gylfa Þórs til Lyngby. 

Nielsen tók við þjálfarastöðunni hjá Íslendingaliðinu fyrir nokkrum dögum síðan eftir að Norðmanninnum Magne Hoseth hafði verið sagt upp störfum eftir aðeins 50 daga í starfi. 

Eins og greint hefur verið frá æfir Gylfi Þór þessa dagana með Valsmönnum sem eru staddir á Montecastillo á Spáni í æfingarferð. RÚV greindi svo frá því í morgun, og hafði eftir Berki Edvardssyni formanni knattspyrnudeildar Vals, að viðræður milli Vals og Gylfa Þórs um samning sín á milli væru í gangi. 

Í janúar fyrr á þessu ári rifti Gylfi Þór samningi sínum við Lyngby. Gylfi hefur glímt við meiðsli síðustu mánuði og fékk samningi sínum við Lyngby rift til að geta sinnt endurhæfingu sinni á Spáni án þess að þiggja laun hjá danska félaginu á meðan.

„Ég reikna ekki með því. Ég legg traust mitt á þá leikmenn sem eru nú þegar til staðar hjá okkur,“ svaraði David Nielsen, nýráðinn þjálfari Lyngby, aðspurður hvort hann væri að búast við því að Gylfi myndi snúa aftur til Lyngby. 

Á Spáni hefur Gylfi Þór notið aðstoðar Friðriks Ellerts Jónssonar, sjúkraþjálfara, í endurhæfingu sinni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×