Fótbolti

Tók báða Ís­lendingana af velli á sama tíma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birnir Snær Ingason og félagar eru komnir í undanúrslitaleikinn.
Birnir Snær Ingason og félagar eru komnir í undanúrslitaleikinn. Vísir/Hulda Margrét

Íslendingaliðið Halmstad komst í dag í undanúrslit sænsku bikarkeppninnar í fótbolta eftir 1-0 sigur á Brommapojkarna í framlengdum leik.

Það var staðan 0-0 þar til á 112. mínútu leiksins þegar miðvörðurinn Phil Ofosu-Ayeh frá Gana skoraði eina markið.

Birnir Snær Ingason og Gísli Eyjólfsson eru báðir nýkomnir til Halmstad en þeir voru báðir í byrjunarliðinu.

Magnus Haglund, þjálfari Halmstads BK, tók báða íslensku leikmennina af velli á sama tíma eða á 72. mínútu. Staðan var þá markalaus.

Seinna fór leikurinn í framlengingu og Halmstad var orðið manni fleiri þegar markið kom loksins.

Halmstad mætir annaðhvort Malmö eða Norrköping í undanúrslitaleiknum en þau mætast í sínum leik í átta liða úrslitunum á morgun.

Halmstad hefur aðeins einu sinni unnið sænska bikarinn og það var árið 1995 eða fyrir 29 árum síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×