Erlent

Þverpólitísk sam­staða í Alabama um ný lög um notkun fósturvísa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögin eru sögð mynda nokkurs konar verndarskjöld um starfsemi þeirra sem aðstoða einstaklinga sem glíma við ófrjósemi.
Lögin eru sögð mynda nokkurs konar verndarskjöld um starfsemi þeirra sem aðstoða einstaklinga sem glíma við ófrjósemi. Getty/Washington Post/Jay L. Clendenin

Þingmenn í Alabama í Bandaríkjunum hafa samþykkt lög til að vernda heilbrigðisstofnanir og heilbrigðisstarfsmenn frá mögulegum sak- og lögsóknum, eftir að hæstiréttur ríkisins úrskurðaði að fósturvísar væru manneskjur og nytu sömu réttinda og börn.

Ýmsar heilbrigðisstofnanir sem buðu upp á þjónustu við einstaklinga sem glímdu við ófrjósemi hættu starfsemi eftir að dómurinn féll en hann gerði það að verkum að eyðilegging fósturvísa, viljandi eða óviljandi, gat nú allt í einu talist manndráp.

Umrædd lög sem samþykkt voru á þinginu í gær njóta þverpólitísks stuðnings og voru samþykkt með 81 atkvæði gegn 12 í neðri deildinni og 29 atkvæðum gegn einu í efri deildinni.

Ríkisstjórinn og Repúblikaninn Kay Ivey undirritaði lögin um leið og þau höfðu verið samþykkt.

Lögin eru sögð vernda heilbrigðisstofnanir og heilbrigðisstarfsmenn frá ábyrgð ef fósturvísra eyðileggjast eða „deyja“ og vonir standa til að þær stofnanir sem höfðu lokað verði opnaðar á ný.

Demókratar segja lögin hins vegar aðeins plástur á sárið, þar sem eftir standi sú ákvörðun hæstaréttar að fósturvísar séu börn. 

Málið hefur verið til mestu vandræða fyrir Repúblikana, sem hafa bæði talað fyrir því að allt „líf“ sé heilagt en einnig að standa þurfi vörð um bandarískar fjölskyldur og tryggja að þær geti fjölgað sér. Hafa sumir þeirra viðurkennt að það verði erfiðara ef fólk veigrar sér nú við því að notast við tæknifrjóvgun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×