Innlent

Á leið í gæslu­varð­hald

Árni Sæberg skrifar
Einn hinna handteknu á leið inn í Héraðsdóm Reykjavíkur.
Einn hinna handteknu á leið inn í Héraðsdóm Reykjavíkur. Vísir

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fallist á kröfur Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um gæsluvarðhald yfir öllum sex sem handtekin voru í gær. Fallist var á vikulangt gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna í tengslum við mál Vy-þrifa og tengdra fyrirtækja.

Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar, í samtali við Vísi. Samkvæmt heimildum fréttastofu er Davíð Viðarsson, eigandi Vy-þrifa, einn þeirra sem úrskurðaðir voru í gæsluvarðhald. Grímur hefur sagst ekki geta staðfest það.

Fyrr í dag var greint frá því að átta hafi varið handteknir í gær í einum umfangsmestu lögregluaðgerðum sögunnar. Tilefni aðgerðarinnar hafi verið rökstuddur grunur um mansal, peningaþvætti, brot á atvinnuréttindum útlendinga og grunur um skipulagða brotastarfsemi. Aðgerðirnar, sem fóru fram á höfuðborgarsvæðinu og víðar, hafi staðið yfir í allan gærdag og gengið vel fyrir sig.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Með rekstur og fasteignir út um alla borg

Athafnamaðurinn Davíð Viðarsson á fjölmörg félög og rekur fjölda veitingastaða og verslana í Reykjavík. Heildareignir félaganna sem Davíð á nema 1,2 milljarði króna. 

Þrír karlar og þrjár konur í vikulangt gæsluvarðhald

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun fara fram á vikulangt gæsluvarðhald yfir þremur körlum og þremur konum í tengslum við umfangsmiklar lögregluaðgerðir í gær. Ekki hefur fengist staðfest hvort Davíð Viðarsson, eigandi fjölda fyrirtækja sem lokað var í gær, sé meðal þeirra.

Átta handteknir og tugir taldir þolendur mansals

Lögreglan handtók átta einstaklinga í umfangsmiklum aðgerðum sínum í gær sem teygðu anga sína frá höfuðborgarsvæðinu til Suðurnesja, Suðurlands og Norðurlands. Meintir þolendur mansals telja nokkra tugi.

Rekstur Davíðs Viðarssonar: Áralöng saga gruggugrar starfsemi

Veitingastaðurinn Pho Víetnam á Suðurlandsbraut fékk tvo af fimm mögulegum í einkunn frá Heilbrigðiseftirlitinu í heimsókn þess árið 2019. Staðurinn hét þá Vietnam Restaurant en var í eigu Davíðs Viðarssonar. Tæpum fimm árum síðar hafði heilbrigðiseftirlitið enn verri sögu að segja af staðnum sem hélst þó opinn þar til í gær þegar lögregla réðist í umfangsmiklar aðgerðir. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×