Fótbolti

Sverris-laust Mid­tjylland lagði Orra- og Rúnars-laust FCK

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sverrir Ingi Ingason lék ekki með Midtjylland í kvöld.
Sverrir Ingi Ingason lék ekki með Midtjylland í kvöld. Getty Images/Lars Ronbog

Midtjylland vann 2-0 sigur á ríkjandi Danmerkurmeisturum FC Kaupmannahöfn í stórleik helgarinnar í dönsku úrvalsdeildinni.

Enginn Íslendingur kom við sögu í leiknum. Rúnar Alex Rúnarsson sat á varamannabekk gestanna, líkt og í síðustu leikjum var Orri Steinn Óskarsson ekki í hóp og Sverrir Ingi Ingason var í leikbanni.

Sverrir Ingi fékk tvö gul og þar með rautt í ótrúlegum 3-2 sigri Midtjylland á AGF í síðustu umferð. Hann þurfti því að sitja á bekknum þegar meistaralið FCK kom í heimsókn. Það kom ekki að sök þar sem heimaliðið hélt gestunum vel niðri frá upphafi til enda.

Fyrra mark leiksins kom þegar rúmur hálftími var liðinn af leiknum. Þá skoraði Mads Bech Sørensen með góðum skalla eftir hornspyrnu Oliver Sørensen. Snemma í síðari hálfleik fékk heimaliðið kjörið tækifæri til að gera út um leikinn en Kamil Grabara, markvörður FCK, varði þá vítaspyrnu Cho Gue-Sung.

Gestirnir sóttu í sig veðrið og lögðu allt kapp á að jafna metin. Það gekk hins vegar ekki og þegar komið var fram á 94. mínútu gulltryggði Dario Osorio sigur Midtjylland. 

Lokatölur 2-0 og heimaliðið er komið á topp dönsku úrvalsdeildarinnar með 42 stig að loknum 20 leikjum. Þar á eftir kemur Bröndby með 40 stig og leik til góða á meðan meistarar FCK eru í 3. sæti með 39 stig eftir 20 leiki.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×