Innlent

Flutti kókaínið og keta­mínið inn­vortis og í fatnaði

Atli Ísleifsson skrifar
Konan kom til landsins með flugi frá Amsterdam í Hollandi í desember síðastliðinn.
Konan kom til landsins með flugi frá Amsterdam í Hollandi í desember síðastliðinn. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt konu í fjórtán mánaða fangelsi fyrir að hafa reynt að smygla umtalsverðu magni af kókaíni og ketamíni til landsins.

Konan var ákærð fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, en hún flutti efnin til landsins með flugi frá Amsterdam í Hollandi í desember síðastliðinn. Var um að ræða tæp 300 grömm af kókaíni og rúm 600 grömm af ketamíni sem hún hafði falið innvortis og í fatnaði sem hún klæddist.

Konan játaði brot sitt afdráttarlaust fyrir dómi. Í dómi kemur fram að af fyrirliggjandi gögnum verði ekki ráðið að konan hafi verið eigandi efnanna eða tekið þátt í skipulagningu á kaupum og innflutningi þeirra til Íslands. Hennar hlutverk hafi einvörðungu verið fólgið í því að koma efnunum hingað til lands og fá þau öðrum í hendur.

Við ákvörðun refsingar var litið til þessa og sömuleiðis að hún hafi verið samvinnufús við rannsókn málsins og gert sér far um að upplýsa um aðild annarra að málinu. Mat dómari í málinu hæfilega refsingu vera fjórtán mánaða fangelsi, en til frádráttar kemur gæsluvarðhald sem hún hafði setið í frá komunni til landsins.

Konunni var jafnframt gert að greiða þóknun og önnur gjöld til skipaðs verjanda, auk sakarkostnað, samtals rúmar tvær milljónir króna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×