Innlent

Skólastjórnendur óttast að vegið verði að réttindum til náms

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Skólastjórnendur í Fjarðabyggð lýsa yfir ósætti sínu við fyrirhugaðar breytingar í skólamálum í sveitarfélaginu.
Skólastjórnendur í Fjarðabyggð lýsa yfir ósætti sínu við fyrirhugaðar breytingar í skólamálum í sveitarfélaginu. Vísir/Vilhelm

Skólastjórnendur í Fjarðabyggð eru ósáttir við fyrirhugaðar breytingar á skólamálum í sveitarfélaginu. Meirihluti Framsóknarflokks og Fjarðarlistans lagði fram tillögu sem sneri að því að sameina alla grunnskóla sveitarfélagsins í eina stofnun. Sama á við um leikskóla sveitarfélagsins.

Talsvert ósætti ríkir um tillöguna og greiddi til að mynda einn bæjarfulltrúi Fjarðarlistans, Hjördís Helga Seljan Þóroddsdóttir, atkvæði gegn henni. Hún segir tillöguna ekki styrkja skólastarf í bæjarfélaginu.

„Ég verð að fá að lýsa vonbrigðum mínum með skort á samstarfi við skóla- og fagfólk í menntamálum í mótun á þessari tillögu. Þegar verið er að fara í eins gríðarmiklar breytingar og þessa þá er algjörlega nauðsynlegt að hafa samstarf við alla aðila skólasamfélagsins, alla skólastjórnendur, starfsfólk og skóla- og foreldraráð skólanna,“ sagði Hjördís á fundi bæjarstjórnar.

Skólastjórnendur í Fjarðabyggð funduðu á Reyðarfirði í dag og lýsa ósætti sínu yfir breytingunum og þeim rangfærslum sem þeir halda fram að fram hafi komið í kjölfarið.

Þeir segja að ekkert samráð hafi verið haft við skólastjórnendur eða aðra aðila skólasamfélagsins og að engar upplýsingar hafi komið fram um tilætlaðar breytingarnar en við birtingu fundargerðar bæjarstjórnar á þriðjudaginn.

Óttast skerðingu skólaþjónustu

Einnig hafi fulltrúa skólastjórnenda grunnskóla í samráðshópi meinað að eiga samráð við eða upplýsa aðra skólastjórnendur í sveitarfélaginu um starf hópsins. Tillögur fulltrúa skólastjórnenda hafi verið virtar að vettugi og ekki tekið mark á þeim.

„Skólastjórnendur óttast að verði fyrirhugaðar breytingar að veruleika þá muni skólaþjónusta við grunnskólabörn skerðast og vegið verði að lögvörðum réttindum þeirra til náms. Lög um farsæld barna leggja ýmsar skyldur á aðila skólasamfélagsins. Skólastjórnendur óttast að ekki náist að uppfylla þær að fullu verði ofangreindar breytingar að veruleika,“ stendur í tilkynningu frá skólastjórnendum í Fjarðabyggð undirritaðri af Ástu Ásgeirsdóttur, skólastjóra Grunnskóla Reyðarfjarðar.

„Þá hefur Kennarasamband Íslands bent á að hugsanlega brjóti tillögur bæjarstjórnar í bága við lög um grunnskóla sem og kjarasamninga Kennarasambands Íslands við Samband íslenskra sveitarfélaga.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×