Fótbolti

Rosenborg fylgist grannt með stöðu Orra

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Orri Steinn Óskarsson hefur ekki fengið mörg tækifæri með FCK undanfarnar vikur.
Orri Steinn Óskarsson hefur ekki fengið mörg tækifæri með FCK undanfarnar vikur. Lars Ronbog / FrontZoneSport via Getty Images

Íslenski landsliðsmaðurinn Orri Steinn Óskarsson er undir smásjánni hjá norska félaginu Rosenborg ef marka má norska miðla.

Það er Aftenposten sem greinir frá því að Rosenborg fylgist grannt með stöðu Orra, en hann er í dag leikmaður danska stórliðsins FC Kaupmannahafnar.

Orri, sem er aðeins 19 ára gamall, hefur skorað tvö mörk í níu deildarleikjum fyrir FCK á yfirstandandi tímabili og sjö mörk í 17 leikjum í öllum keppnum. Tækifærin hjá liðinu hafa hins vegar verið af skornum skammti hjá Orra undanfarnar vikur og mánuði og því ekki ólíklegt að framherjinn sé farinn að líta í kringum sig.

Þá er norska liðið Rosenborg í framherjaleit um þessar mundir, en þrír af framherjum liðsins eru að glíma við meiðsli.

Orri hefur verið hjá FCK síðan árið 2020 þar sem hann hefur skorað níu mörk í 37 leikjum í öllum keppnum. Þá hefur hann skorað tvö mörk fyrir íslenska landsliðið í sex landsleikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×