Innlent

Tóku út gremju sína á leigu­bif­reið og lög­reglu­stöð

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla og slökkvilið höfðu í nógu að snúast í nótt.
Lögregla og slökkvilið höfðu í nógu að snúast í nótt. Vísir/Vilhelm

Sex gistu fangageymslur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt, meðal annars einstaklingur sem fjarlægja þurfti af bar í miðbænum. Gat hann ekki greint frá því hvar hann ætti heima og fékk því að sofa úr sér hjá lögreglu.

Lögregla var einnig kölluð til vegna einstaklings sem var sagður ógna starfsmönnum matsölustaðar í miðborginni. Stuttu seinna barst önnur tilkynning um einstakling sem veittist að leigubifreið með höggum og spörkum og reyndist um sama manna að ræða.

Var viðkomandi handtekinn og færður í fangageymslu.

Tilkynnt var um slagsmál í miðborginni og æstan aðila í apóteki en sá var farinn þegar lögreglu bar að. Þá var tilkynnt um þjófnað á rafmagnshlaupahjóli í póstnúmerinu 105 og fannst meintur þjófur stuttu síðar.

Í umdæminu Hafnarfjörður/Garðabær/Álftanes voru þrír ökumenn handteknir grunaðir um akstur undir áhrifum og í Kópavogi/Breiðholti barst tilkynning um innbrot í heimahús, sem er í rannsókn.

Í Grafarvogi/Mosfellsbæ/Árbæ barst tilkynning um þjófnað í matvöruverslun og þá var ökumaður handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum. Þegar hann var látinn laus að lokinni blóðsýnatöku lét viðkomandi öllum illum látum; sparkaði í hurðir og öskraði. 

Neitaði hann að yfirefa starfstöð lögreglu þrátt fyrir ítrekuð fyrirmæli og var að lokum vistaður í fangageymslu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×