Fótbolti

Messi vippaði yfir meiddan mann

Sindri Sverrisson skrifar
Lionel Messi og félagar í Inter Miami hófu leiktíðina á sigri.
Lionel Messi og félagar í Inter Miami hófu leiktíðina á sigri. Getty/Megan Briggs

Lionel Messi var í sviðsljósinu þegar Inter Miami hóf nýja leiktíð í bandarísku MLS-deildinni í fótbolta á því að vinna 2-0 sigur gegn Real Salt Lake í gærkvöld.

Messi lagði upp fyrra mark leiksins fyrir Robert Taylor á 39. mínútu, þó að Zac MacMath væri reyndar afar nálægt því að verja skotið úr þröngu færi.

Gömlu Barcelona-samherjarnir Messi og Luis Suárez hjálpuðust svo að við að leggja upp seinna markið fyrir Diego Gomez tæpum tíu mínútum fyrir leikslok.

Það sem vakti hins vegar ekki síður athygli er þegar hinn 36 ára Messi sýndi töfrana í tánum undir lok fyrri hálfleiks, og vippaði boltanum snyrtilega yfir leikmann sem lá í vítateigsboga Real Salt Lake. Skotið sem á eftir fylgdi fór hins vegar beint í varnarmann eins og sjá má.

Koma Messi til Miami síðasta sumar vakti auðvitað mikla athygli og hann vann norður-ameríska deildabikarinn með liðinu, en gengið í MLS-deildinni var afar dapurt og Inter Miami endaði í 14. og næstneðsta sæti, langt frá úrslitakeppninni.

Nú hefur hinn 37 ára gamli Suárez bæst í hópinn, sem og þeir Sergio Busquets og Jordi Alba, sem allir léku með Barcelona líkt og Messi, og liðið því orðið að meistarakandídötum.

David Beckham er einn af eigendum Inter Miami og næsti leikur liðsins er gegn gamla félaginu hans, LA Galaxy, á útivelli á sunnudaginn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×