Fótbolti

Skilur ekkert í að Ajax hafi fengið gæðalausan Henderson

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Van der Vaart lék meðal annars með Tottenham og Real Madrid á sínum ferli.
Van der Vaart lék meðal annars með Tottenham og Real Madrid á sínum ferli. NESimages/Raymond Smit/DeFodi Images via Getty Images

Rafael van der Vaart lét óánægju sína í ljós með kaup Ajax á Jordan Henderson.

Van der Vaart er fyrrum hollenskur landsliðsmaður sem útskrifaðist úr Ajax akademíunni og þreytti frumraun sína með aðalliðinu 17 ára gamall. Hann starfar núna sem sérfræðingur í setti hjá hollenskri sjónvarpsstöð. Þar sagðist hann vera afar óánægður með uppeldisfélag sitt og benti á Jordan Henderson sem dæmi um slaka kaupstefnu félagsins.

Henderson gekk til liðs við Ajax í janúar eftir stutt stopp hjá Al-Ettifaq í Sádí-Arabíu. Hann var gerður að fyrirliða liðsins en Ajax hefur ekki enn unnið í þeim fjórum leikjum sem Henderson hefur spilað.

„Ajax hefur fengið til sín gæðalausa leikmenn. Félagið þarf núna bara að þrauka til enda tímabilsins. Félagið fékk Henderson til liðsins, það eina sem hann gerir er að gefa boltann til baka eða út á kant.“

Ummæli Van der Vaart komu í kjölfar grátlegs jafnteflis gegn NEC Nijmegen þar sem Ajax missti forystuna í uppbótartíma. Ajax situr í 5. sæti hollensku úrvalsdeildarinnar eftir afar slaka byrjun og sveiflukennt gengi á tímabilinu.  

Auk þess stendur liðið í ströngu í Sambandsdeildinni. Fyrri leikurinn í einvígi þeirra gegn Bodö/Glimt endaði 2-2 eftir tvö mörk frá Ajax í uppbótartíma. Seinni leikurinn fer fram á morgun á heimavelli Bodö/Glimt í Noregi.

„Sem Ajax maður er ég sorgmæddur. Ég veit ekki hvað er hægt að segja meira. Það væri best fyrir þá að detta bara út og byrja upp á nýtt á næsta tímabili“ sagði Van der Vaart að lokum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×