Erlent

Lincoln bestur, Biden í fjór­tánda sæti en Trump al­verstur

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Abraham Lincoln þykir mestur og bestur forseta Bandaríkjanna.
Abraham Lincoln þykir mestur og bestur forseta Bandaríkjanna. Getty

Samkvæmt sagnfræðingum í Bandaríkjunum er Joe Biden fjórtándi besti Bandaríkjaforseti sögunnar, á meðan Donald Trump er sá alversti. Mesta afrek Biden var að koma Trump frá völdum, segja prófessorarnir sem stóðu fyrir könnuninni.

Efstir á lista voru Abraham Lincoln, Franklin D. Roosevelt, George Washington, Theodore Roosevelt og Thomas Jefferson. Líkt og fyrr segir varð Donald Trump í 45. sæti í könnuninni, á eftir óvinsælum forsetum á borð við James Buchanan, Franklin Pierce og Andrew Johnson.

Samkvæmt New York Times hefur röðum forsetanna í könnuninni breyst í gegnum tíðina, líklega eftir áherslum hvers tíma. Til að mynda megi líklega rekja það til aukinnar áherslu á jöfnuð óháð litarhætti að Barack Obama færist upp um níu sæti í sjöunda sætið.

Sömu sögu megi segja um Ulysses S. Grant, sem leiddi Norðurríkin til sigurs í Þrælastríðinu og barðist gegn Ku Klux Klan. Hann færðist einnig upp um níu sæti á listanum og situr í sautjánda sæti.

Það þarf varla að koma á óvart að uppröðunin er afar ólík eftir því hvar sagnfræðingarnir skipa sér í flokk en meðal stuðningsmanna Repúblikanaflokksins er Ronald Reagan í fimmta sæti, George H.W. Bush í ellefta sæti, Obama í fimmtánda sæti og Biden í 30. sæti.

Þá setja stuðningsmenn Demókrataflokksins Regan í átjánda sæti, Bush í nítjánda sæti, Obama í sjötta sæti og Biden í þrettánda sæti. Mestur er skoðanamunurinn þegar kemur að George W. Bush, sem Repúblikanar setja í nítjánda sæti en Demókratar í 33. sæti.

NY Times segir einnig vert að geta þess að lítill munur er á því hvar fræðamennirnir raða Bill Clinton en hann er í tíunda sæti meðal stuðningsmanna Repúblikanaflokksins og tólfta sæti meðal stuðningsmanna Demókrataflokksins.

Þetta má mögulega rekja til #metoo hreyfingarinnar og endurmats á arfleifð hans sem forseta.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×