Fótbolti

Upprúllun í Íslendingaslag Sveindísar og Selmu Sólar

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sveindís Jane í leik gegn Leverkusen á dögunum.
Sveindís Jane í leik gegn Leverkusen á dögunum. Vísir/Getty

Það var Íslendingaslagur í þýsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu þegar Nurnberg tók á móti Wolfsburg á heimavelli sínum.

Selma Sól Magnúsdóttir var í byrjunarliði Nurnberg í dag en hún gekk til liðs við félagið í janúar. Selma Sól hefur verið í byrjunarliði liðsins í öllum leikjunum síðan hún kom frá Rosenborg. Sveindís Jane Jónsdóttir er að koma til baka úr meiðslum og byrjaði á bekknum hjá Wolfsburg eftir að hafa byrjað síðustu tvo leiki liðsins.

Leikurinn sjálfur var fremur ójafn. Gestirnir komust í 1-0 strax á 7. mínútu og þó svo að heimakonur í Nurnberg hafi jafnað aðeins fimm mínútum síðar voru yfirburðir Wolfsburg töluverðir. Gestirnir komust í 4-1 áður en fyrri hálfleikur var á enda og í 5-1 strax í upphafi þess síðari.

Sveindís Jane kom inn af bekknum á 65. mínútu og Wolfsburg átti eftir að bæta við fjórum mörkum eftir það. Sveindís lagði upp eitt þeirra og Wolfsburg fagnaði að lokum 9-1 sigri.

Wolfsburg er í efsta sæti deildarinnar eftir sigurinn í dag. Liðið er tveimur stigum á undan Bayern Munchen sem á leik til góða. Selma Sól og liðsfélagar hennar í Nurnberg eru í næstneðsta sæti úrvalsdeildarinnar og tveimur stigum frá öruggu sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×