Fótbolti

KSÍ tapaði 126 milljónum króna

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Rekstrarniðurstaða KSÍ er tap sem nemur 126 milljónum króna.
Rekstrarniðurstaða KSÍ er tap sem nemur 126 milljónum króna. Vísir/Vilhelm

Knattspyrnusamband Íslands, KSÍ, birti í dag ársreikning sinn fyrir árið 2023 og fjárhagsáætlun fyrir árið 2024.

KSÍ greindi frá því í desember á síðasta ári að verulegt tap yrði á rekstri sambandsins. Rekstrarniðurstaða sambandsins er tap sem nemur 126 milljónum króna.

Á heimasíðu KSÍ segir þó að ef þessi niðurstaða er sett í samhengi við síðustu ár megi sjá tengsl milli afkomu KSÍ og greiðslna frá evrópska knattspyrnusambandinu, UEFA, vegna Þjóðadeildar karla. Þær greiðslur komi á sléttum árum og í því samhengi megi nefna að þegar horft sé til lengri tíma megi sjá að samtals sé hagnaður KSÍ 43 milljónir króna árin 2022-2023 og rúmar 200 milljónir króna ef litið sé til síðustu sex ára (2018-2023).

Komið að ögurstundu

Þá er fjárhagsáætlun KSÍ fyrir árið 2024 einnig lögð fram sem gerir ráð fyrir hagnaði upp á rúmlega 21 milljón króna. Til að ná  þeirri niðurstöðu hafi meðal annars landsleikjum verið fækkað um tíu milli áranna 2023 og 2024.

Einnig segir að tvö verkefni séu framundan sem geti gjörbreytt starfsumhverfi KSÍ. Annars vegar sé það úrslitakeppni EM karla 2024 og hins vegar staða mála gagnvart þjóðarleikvanginum og þeirri aðstöðu.

„Framundan eru a.m.k. tvö verkefni sem geta gjörbreytt starfsumhverfi Knattspyrnusambands Íslands, annars vegar er um að ræða þá staðreynd að ef A landslið karla kemst í úrslitakeppni EM 2024 í Þýskalandi þá breytist umhverfið hratt, hins vegar stöðu mála gagnvart þjóðarleikvanginum og þeirri aðstöðu, og þar er komið að ögurstundu,“ segir á heimasíðu KSÍ.

„Ef ekkert verður að gert og KSÍ stendur ítrekað frammi fyrir því að bera sjálft háan kostnað við að gera leikvanginn og völlinn hæfan fyrir leiki landsliða og Evrópuleiki félagsliða þá er ljóst að það mun hafa mikil áhrif á rekstrarumhverfi og getu KSÍ til að halda úti landsliðum og styðja við starf félaganna og þróun íslenskrar knattspyrnu.“

Skoða má ársskýrslu, ársreikning og fjárhagsáætlun KSÍ, ásamt öllu því tengdu, með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×