Innlent

Stéttar­fé­lög leigu­bíl­stjóra harma um­rætt kyn­ferðis­brot

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Miðlæg rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er með til rannsóknar gróft kynferðisbrot gegn konu, sem á að hafa átt sér stað í leigubíl.
Miðlæg rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er með til rannsóknar gróft kynferðisbrot gegn konu, sem á að hafa átt sér stað í leigubíl. Vísir/Vilhelm

Stjórnarmenn Bandalags íslenskra leigubifreiðastjóra og Bifreiðastjórafélagsins Frama harma að ung kona hafi nýlega orðið fyrir ofbeldi af hendi tveggja manna, þar af meints leigubifreiðastjóra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félögunum tveimur

Í tilkynningunni kemur fram að forsvarsmenn starfstéttar leigubifreiðastjóra óski konunni góðs bata. Greint var frá því í gær að rannsókn á meintu kynferðisbroti í leigubíl standi nú yfir hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar.

„Brotaþoli getur þurft að stríða lengi við afleiðingarnar af slíku ofbeldi og endurupplifa það í ferlinu til að geta sótt rétt sinn. Því vonum við svo sannarlega að stjórnvöld veiti brotaþola nauðsynlegan stuðning til þess að ganga alla leið í gegnum ferli ákærunnar og batans. Leigubifreiðastjórar fordæma allt ofbeldi, því það skaðar fólk ævilangt,“ segir í tilkynningunni.

Innviðaráðherra svikist undan viðtali

Þá segir að Félögin B.Í.L.S. og Frami hafi ítrekað varað stjórnvöld við þeim afleiðingum sem biðu síðustu lagabreytinga, en hafi mætt fyrirlitningu ráðamanna og skilningsleysi þeirra á viðkvæmu umhverfi leigubifreiðaaksturs.

Þar að auki hefðu forsvarsmenn leigubifreiðstjóra óskað eftir fundi með innviðaráðherra áður en málum yrði ekki aftur snúið. Ráðherrann hafi samþykkt samtal, en svikið það og flýtt frumvarpinu í gegnum þingið síðustu daga fyrir jólafrí árið 2022. 

„Við viljum biðja þá þingmenn sem kusu með lagabreytingunni að horfast í augu við eigin mistök og við sendum þeim þingmönnum sem kusu gegn breytingunni einlægar þakkir,“ segir loks í tilkynningunni. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×