Erlent

Þarf ekki í faðernispróf eftir að hafa blandað sæði sínu og föður síns

Jón Þór Stefánsson skrifar
Áfrýjunardómstóll í London úrskurðaði í málinu.
Áfrýjunardómstóll í London úrskurðaði í málinu. EPA

Maður sem blandaði saman sæði sínu og föður síns til þess að gera þáverandi kærustu sína ólétta þarf ekki að fara í faðernispróf, jafnvel þó að óljóst sé hver sé blóðfaðir barns konunnar.

Þetta úrskurðaði áfrýjunardómstóll í London, en fjallað er um málið á vef Sky News.

Í úrskurðinum segir að miklar líkur séu á því að einstaklingurinn sem barnið telji vera afa sinn sé í raun og veru blóðfaðir þess. Og að sá sem barnið telji vera föður sinn sé í raun og veru hálfbróðir þess.

Fram kemur að maðurinn og barnsmóðir hans hafi samþykkt að blanda saman sæði hans við föður hans og notast við það til að gera konuna ólétta. Það hafi þau gert vegna þess að maðurinn hafi glímt við frjósemisvanda, og þau ekki átt efni á tæknifrjóvgun.

Þetta leiddi til fæðingar sveinbarns, en ákvörðunin átti að vera leynileg.

Dómari málsins segir í úrskurðinum að drengurinn sé „einstakt barn sem væri ekki til ef ekki væri fyrir óvenjulega tilhögun mála við getnaðinn, en þessi tilhögun hefur jafnframt skapað möguleika á því að barnið gæti orðið fyrir andlegum skaða komist það að sannleikanum.“

Barnið og maðurinn hefðu myndað með sér náin fjölskyldutengsl, sem feðgar. Það væri undir manninum og móðurinni að ákveða hvort barnið ætti að verða upplýst um hið sanna.

„Það er þeirra mál,“ segir dómarinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×