Fótbolti

Lést á fyrsta degi í nýju starfi

Sindri Sverrisson skrifar
Mounir Hamoud lék með Strömsgodset stærstan hluta síns ferils.
Mounir Hamoud lék með Strömsgodset stærstan hluta síns ferils. Strömsgodset

Norski fótboltaheimurinn syrgir nú Mounir Hamoud sem lést af völdum hjartaáfalls í gærmorgun, 39 ára að aldri.

Hamoud lætur eftir sig konu og fimm börn. Í gær átti hann að hefja nýtt þjálfarastarf hjá Strömsgodset, liðinu sem að hann spilaði með stærstan hluta síns ferils. Logi Tómasson er eini Íslendingurinn sem leikur með Strömsgodset í dag.

Hamoud lék einnig með Bodö/Glimt og Lyn, og með yngri landsliðum Noregs, og átti fimmtán ára feril á efsta stigi í Noregi. Árið 2013 varð Hamoud Noregsmeistari með Strömsgodset.

Bróðir hans, Sofian Hamoud, segir í viðtali við Drammens Tidende að andlátið sé mikið áfall.

„Það er mikilvægt fyrir okkur að það séu engar getgátur. Hann fékk hjartaáfall og það var ekki mögulegt að bjarga lífi hans. Nú tekur við erfiður tími fyrir konu, börn, fjölskyldu og aðra sem stóðu honum næst,“ sagði bróðirinn.

Strömsgodset og norska knattspyrnusambandið greindu frá andláti Hamouds í gær og á heimasíðu Strömsgodset sagði:

„Það er með mikilli sorg sem að Strömsgodset meðtekur þau skilaboð að Mounir Hamoud sé fallinn frá, 39 ára að aldri. Hann lést skyndilega í morgun vegna hjartaáfalls. Sorg ríkir nú hjá Strömsgodset. Mounir Hamoud verður sárt saknað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×