Fótbolti

Þriðji leikurinn í röð án sigurs hjá At­­letico

Smári Jökull Jónsson skrifar
Isaac Romero fagnar marki sínu í dag.
Isaac Romero fagnar marki sínu í dag. Vísir/Getty

Sevilla vann góðan 1-0 sigur á Atletico Madrid þegar liðin mættust í spænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Atletico Madrid tapaði fyrir Athletic Bilbao í spænska bikarnum í vikunni og fyrir nágrönnum sínum i Real Madrid um síðustu helgi í deildinni. Liðið var í 4. sæti fyrir leikinn og tveimur stigum á eftir Barcelona sem leikur gegn Granada í kvöld. Sevilla vann gegn Rayo Vallecano í síðustu umferð en liðið hafði ekki unnið í síðustu þremur leikjum þar á undan og var rétt fyrir ofan fallsætin í töflunni.

Isaac Romero náði forystunni fyrir Sevilla á 15. mínútu leiksins þegar hann skoraði eftir að Lucas Ocampos vann skallaeinvígi eftir hornspyrnu.

Romero átti skot í tréverkið skömmu síðar og Sevilla var sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum. Diego Simeone gerði tvær breytingar í hálfleik og setti meðal annars Memphis Depay inn á völlinn. Það hafði lítið að segja og Atletico gekk illa að skapa sér alvöru færi þrátt fyrir að ógna marki heimamanna.

Að lokum fór svo að mark Romero var það eina í leiknum og Sevilla vann mikilvægan sigur í baráttunni í neðri hlutanum. Atletico Madrid missti hins vegar af tækifæri til að lyfta sér upp í þriðja sætið um stundarsakir að minnsta kosti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×