Fótbolti

Tví­burar taka yfir hjá egypska lands­liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah meiddist í öðrum leik Egypta og missti af restinni af Afríkukeppninni sem var mikið áfall fyrir liðið. Hér svekkir Salah sig í stúkunni.
Mohamed Salah meiddist í öðrum leik Egypta og missti af restinni af Afríkukeppninni sem var mikið áfall fyrir liðið. Hér svekkir Salah sig í stúkunni. Getty/Visionhaus

Markahæsti leikmaður egypska landsliðsins frá upphafi er tekinn við sem þjálfari landsliðsins eftir ófarir liðsins í Afríkukeppninni á dögunum.

Hossam Hassan er nýr þjálfari landsliðsins og tvíburabróðir hans Ibrahim Hassan tekur enn fremur við sem liðsstjóri.

Portúgalinn Rui Vitória var þjálfari liðsins en þurfti að taka pokann sinn eftir að slaka frammistöðu í Afríkukeppninni þar sem Egyptar unnu ekki leik og duttu út í sextán liða úrslitunum.

Hossam Hassan skoraði á sínum tíma 68 mörk fyrir egypska landsliðið en það er tólf mörkum meira en Mohamed Salah sem er i öðru sætinu. Hassan lék 176 landsleiki frá 1985 til 2006 og er líka annar leikjahæsti maður landsliðsins frá upphafi.

Hassan hefur þjálfað nokkur egypsk félagslið sem og landslið Jórdaníu.

Ibrahim Hassan var varnarmaður og er fimmti leikjahæsti leikmaður landsliðsins. Þeir spiluðu saman hjá mörgum félögum.

Það var búist við því að Egyptar myndu ráða erlendan þjálfara og var Frakkinn Herve Renard meðal annars orðaður við starfið.

Vitória hafði fengið fjögurra ára samning árið 2022 en náði ekki því besta fram hjá liðinu. Egyptar rétt skriðu upp úr riðlinum efir jafntefli í öllum þremur leikjum sínum á móti Mósambík. Gana og Grænhöfðaeyjum og töpuðu síðan í vítakeppni á móti Kongó í sextán liða úrslitunum.

Miklu munaði auðvitað um það að Mohamed Salah meiddist aftan í læri í öðrum leiknum og aðalmarkvörðurinn Mohamed El Shenawy fór úr axlarlið í þriðja leiknum.

Óheppnin var svo mikil að mati Egypta að þeir fórnuðu kú til að reyna að snúa lukkunni við. Það hafði ekki áhrif því liðið féll úr keppni í vítakeppni.

Egyptar hafa unnið Afríkukeppnina oftast allra þjóða eða sjö sinnum en aldrei þó síðan að Mo Salah kom inn í landsliðið árið 2011. Síðast unnu þeir árið 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×