Gísli, sem er 29 ára gamall miðjumaður, var kynntur til leiks á samfélagsmiðlum Halmstad í dag. Félagið segir ekki hversu langan samning Gísli skrifaði undir, en samkvæmt heimildum Fótbolti.net verður Gísli hjá félaginu næstu þrjú árin hið minnsta.
Welcome to HBK, 𝐆𝐢́𝐬𝐥𝐢 𝐄𝐲𝐣𝐨́𝐥𝐟𝐬𝐬𝐨𝐧 🔥 pic.twitter.com/1B37XtAerY
— Halmstads Bollklubb (@HalmstadsBK) February 6, 2024
Gísli er annar Íslendingurinn sem Halmstad fær í sínar raðir á stuttum tíma, en Birnir Snær Ingason, besti leikmaður síðasta tímabils í Bestu-deildinni, gekk einnig í raðir félagsins í síðasta mánuði.
Eitthvað hefur Svíunum þó misfarist í að stafa íslenska nafnið því eins og sjá má í færslu liðsins á X, áður Twitter, hér fyrir ofan er Gísli merktur „Eyjlófsson“ á treyju sinni. Þó má gera ráð fyrir að því verði kippt í lag áður en tímabilið hefst.
Halmstad hafnaði í tólfta sæti sænsku deildarinnar á síðasta tímabili, en Gísli hefur verið algjör lykilmaður í liði Breiðabliks undanfarin tímabil. Hann skoraði sjö mörk fyrir liðið í Bestu-deildinni síðasta sumar og bætti við þremur mörkum fyrir liðið í 15 Evrópuleikjum.
Alls lék Gísli 156 deildarleiki fyrir Breiðablik og skoraði í þeim 31 mark. Þá á hann einnig að baki fjóra leiki fyrir íslenska A-landsliðið.