Fótbolti

„Miklu skemmti­legra að vera leik­maður Barca en þjálfari Barca“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ronald Koeman er nú landsliðsþjálfari Hollendinga og hér er hann með aðstoðarmönnum sínum Sipke Hulshoff, Erwin Koeman og Patrick Lodewijks.
Ronald Koeman er nú landsliðsþjálfari Hollendinga og hér er hann með aðstoðarmönnum sínum Sipke Hulshoff, Erwin Koeman og Patrick Lodewijks. Getty/OLAF KRAAK

Ronald Koeman, fyrrum leikmaður og þjálfari Barcelona, skilur vel kvartanir Xavi um hversu erfitt sé að vinna í kringum alla pólitíkina í spænska félaginu.

Xavi tilkynnti það á dögunum að hann myndi hætta sem þjálfari Barcelona liðsins í sumar. Xavi hefur síðan sagt frá því að hann njóti ekki lífsins sem þjálfari Barcelona og að hann líti á það sem svo að starf hans sé ekki mikils metið.

Koeman missti starfið til Xavi í nóvember 2021.

„Það er miklu skemmtilegra að vera leikmaður Barca en þjálfari Barca. Ég mátti líka þola mikla pressu og stress. Þetta er erfiðasta starfið sem ég hef unnið,“ sagði Koeman. ESPN segir frá.

„Ég skil Xavi. Í mínu tilfelli þá átti ég í deilum við forsetann [Joan Laporta]. Í hans tilfelli þá er hann Katalóníumaður og sonur félagsins. Hann hefur einnig komist að því að það það er svo miklu skemmtilegra og fallegra að vera leikmaður félagsins en að vera þjálfari þess. Það var mjög erfitt fyrir mig að þjálfa Barcelona,“ sagði Koeman.

„Með fullri virðingu þá var Xavi þjálfari í Katar. Hann kemur síðan til Barelona. Þar þarf hann að eiga við alla hluti,“ sagði Koeman.

„Hann hefur alltaf fengið hrós en nú fær hann að kynnast hinni hliðinni. Fjölmiðlar miða byssu á þig og pólitíkin hjá félaginu er ekki indæl heldur. Vandamálið liggur í stjórn félagsins,“ sagði Koeman.

„Þeir verða að passa það að þjálfarinn fái að njóta sín. Ég var ekki búinn á því andlega en mátti þola pressu og álag í vinnunni hjá félaginu. Það er ekki gaman þegar börnin þín gráta þegar þú tapar leik,“ sagði Koeman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×